139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið varðandi ástæðuna fyrir þessum hraða. Nú er klukkan rúmlega sex og hér er allt í uppnámi vegna þess að ég leyfi mér að leggja fram bráðnauðsynlega lagabreytingartillögu á milli 2. og 3. umr. Ástæðan er tímaskortur og hann vegur þyngra en vönduð lagasetning á Alþingi.

Frú forseti. Ég hafna svona málflutningi frá formanni allsherjarnefndar því að nú á frekar að keyra málið gallað í gegn til að hægt sé að gera það að lögum í kvöld. Hér er leyfi til að halda fund til kl. 12 á miðnætti þannig að þingið er ekki í neinu tímahraki þrátt fyrir að betri bragur væri á þinginu ef við ræddum að degi til jafnalvarleg mál og breytingar á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur á þessum svokallaða fjölskylduvæna vinnustað.

Ég hafna þessum hraða, ég hafna þeim rökum að keyra þurfi málið með offorsi í gegnum þingið. Ég spurði gesti sem komu á fund allsherjarnefndar hvort utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti hafist þó að frumvarpið hefði ekki farið í gegnum þingið. Svarið var já. Þess vegna lýsi ég fullri ábyrgð á hendur framkvæmdarvaldinu á því að nú eru sjómenn farnir til veiða og geta ekki kosið í Icesave-kosningunni sem fram fer 9. apríl. Það skrifast algerlega á framkvæmdarvaldið því að þeir gestir sem komu fyrir allsherjarnefnd sáu ekki neitt því til fyrirstöðu að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefði getað hafist fyrir löngu um leið og ljóst var að málið mundi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en við því var ekki orðið. Svo er það notað núna sem tálbeita og málsástæða fyrir slælegri lagasetningu að utankjörfundaratkvæðagreiðslan eigi að hefjast á morgun. (Forseti hringir.) En ég fagna því að hún hefjist samt sem áður.