139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um málið sem fram fór áðan gerði ég grein fyrir þeim fyrirvara sem ég og hv. þm. Birgir Ármannsson gerðum við það nefndarálit og þær breytingartillögur sem meiri hluti allsherjarnefndar lagði fram við sömu umræðu. Sá fyrirvari laut að kæruleiðum og þeirri framkvæmd sem á sér stað ef upp kemur ágreiningur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Lagt er til í frumvarpinu að 13. gr. laganna verði breytt þannig, með leyfi forseta:

„Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr. Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Við stóðum í þeirri trú að gerði einhver borgari athugasemdir við niðurstöður landskjörstjórnar væri það kristaltært að sá ágreiningur yrði leiddur til lykta í dómskerfinu, fyrir Héraðsdómi og þá eftir atvikum Hæstarétti. Í nefndarálitinu sem við skrifuðum undir segir um það atriði, með leyfi forseta:

„Dómstólar eigi svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reyndi.“

Ég segi fyrir mína parta að ég vona að svo sé. Ég vona að um það sé enginn ágreiningur að komi eitthvað upp á í þjóðaratkvæðagreiðslu séu lögin þess eðlis að Hæstiréttur Íslands eigi alltaf lokaorðið. En þá er uppi það sjónarmið sem við viljum halda fram, að nauðsynlegt sé að taka sérstaklega fram í lagatextanum sjálfum hvernig með það skuli fara. Með fullri virðingu fyrir hv. formanni allsherjarnefndar og öðrum þingmönnum nægja ekki að mínu mati yfirlýsingar um það úr ræðustól Alþingis og það nægja heldur ekki skýringar í nefndaráliti til að tryggja að þannig sé farið með ágreiningsmál í slíkum kosningum.

Þar fyrir utan er vísað til þess í texta nefndarálitsins að dómstólar eigi úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á þær reynir. Hins vegar kann að vera óljóst hverjar þær almennu reglur eru. Reglur um meðferð kærumála og ágreiningsmála í lögum um kosningar til sveitarstjórna eru aðrar en reglur um kærur og ágreiningsmál varðandi kosningar til Alþingis og enn aðrar þegar kemur að forsetakosningum. Af þeim ástæðum töldum við við meðferð málsins milli 2. og 3. umr. frumvarpsins í allsherjarnefnd að nauðsynlegt væri að taka upp í textann sjálfan, í 13. gr., ákvæði sem kvæði skýrt á um að dómstólar hefðu síðasta orðið (MÁ: Um einhvern …?) um ágreiningsmál, hver sem þau nú væru, hv. þm. Mörður Árnason, til að tryggja að ákvæðið væri óskýrt, að ekki væri uppi ágreiningur um hvaða framkvæmd ætti að eiga sér stað við slíkar aðstæður. Á það sjónarmið var ekki fallist af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar, því miður segi ég, annars vegar af þeirri ástæðu að málið er ekki pólitískt í eðli sínu, það er ákaflega lítil pólitík í því að mínu mati hvernig framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna á að vera. Hins vegar vegna þess að mönnum hafa verið býsna mislagðar hendur varðandi framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og kosninga á umliðnum missirum. Þeim mun meiri ástæða hefði verið til þess að festa það kirfilega í lagatextanum sjálfum með hvaða hætti ætti að leiða ágreiningsmál til lykta.

Ég ítreka að það er skilningur minn að komi slíkur ágreiningur upp og einhver er ósáttur við úrskurði landskjörstjórnar geta menn leitað til dómstóla. Ég er sammála hv. þm. Róberti Marshall um að þannig eru hinar efnislegu og almennu reglur. Ég hefði viljað að það yrði betur tryggt í lagatextanum sjálfum en því miður vannst ekki tími til að gera það með þeim hætti og þar við situr. Af þeirri ástæðu sé ég mér ekki fært að styðja þetta mál og ég tel að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins, því miður, vegna þess að það mundi ekki gerast ef á þetta hefði verið fallist.