139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt er hún að gera því skóna að það sé einhver kergja í meiri hluta nefndarinnar gagnvart því að setja orðið Hæstiréttur inn í lagatextann. Það er alveg klárt í nefndaráliti með hvaða hætti eigi að fjalla um þetta mál. Það er í mínum huga ekki verið að gera þetta með neinum öðrum hætti en gert var fyrir ári, þetta er nákvæmlega eins framkvæmd. Ég hafna því alfarið að í þessari lagasetningu sé verið að reyna með einhverjum hætti að fjarlægja eða afmá tilveru Hæstaréttar eins og mér fannst hv. þingmaður vera að gera skóna í ræðu sinni. Ég vona að svo sé ekki.

Það er skilningur meiri hluta nefndarinnar að um ágreiningsmál fari þannig að Hæstiréttur eigi lokaorðið. Það er alveg klárt mál. Það er búið að segja það hér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þetta er niðurstaða meiri hluta nefndarinnar. Þegar búið er að komast að svona niðurstöðu sem að mati meiri hluta nefndarinnar dugar er einfaldlega ekki hægt að elta hverja einustu tillögu sem hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur dettur í hug að koma með, sem oft er þannig háttað að virðist ekki vera til neins annars en að tefja málið og reyna að koma í veg fyrir framgang þess (Gripið fram í.) með öllum mögulegum ráðum.

Ég er ekki að fullyrða að svo sé í þessu máli en það virðist oft vera þannig. Ef til vill hefur það eitthvað að segja í þessu máli, (Forseti hringir.) ég skal ekki segja.