139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér var verið að fella út það ákvæði að kærur séu kæranlegar til Hæstaréttar. Finnst mér mjög miður að þetta skuli núna vera lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, einu kosningalögin sem hafa ekki beina kæruleið til æðra setts stjórnvalds.

Það breytir því ekki að mér finnst þetta það mikið stórmál að ég segi fyrir mig persónulega að vegna þess að þessi tillaga var ekki samþykkt treysti ég mér ekki til að samþykkja frumvarpið í heild sinni. Þannig er það. Ég er svo sannfærð um að eina ferðina enn er Alþingi að gera mikil mistök með því að fella þetta ákvæði um Hæstarétt út úr lögunum. Framtíðin verður að leiða það í ljós hvernig þessi lög reynast í framtíðinni, en ég minni aftur á að þessi lög eru notuð í mjög umdeildum málum á landsvísu, eins og t.d. ESB-atkvæðagreiðslum (Forseti hringir.) og Icesave-atkvæðagreiðslum. Við finnum ekki eldfimari mál.