139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar spurningar fyrir framsögumann þessa nefndarálits. Í fyrsta lagi er það svo að stjórnlagaþingskosningarnar sem Hæstiréttur hefur ógilt kostuðu þjóðina tæpar 300 millj. kr. Áætlað er samkvæmt gögnum sem allsherjarnefnd er með að yrði hætt við stjórnlagaþingið nú yrði áfallinn kostnaður tæpar 500 millj. kr., hálfur milljarður. Það er því ekki vegna umhyggju ríkisstjórnarflokkanna fyrir stjórnarskránni sem haldið er áfram með þetta mál heldur einungis til að fela þann kostnað sem er tilfallinn. Haldi þetta áfram kemur þetta til með að kosta rúmar 600 millj. kr.

Hér liggur fyrir breytingartillaga sem hv. þm. Róbert Marshall lagði fram í dag þar sem kveðið er á um að þetta megi fá mánuð í framlengingu. Mig langar því að beina fyrstu spurningu til formannsins: Hvað telur þingmaðurinn að þetta muni auka kostnaðinn mikið verði þetta ákvæði nýtt sem lagt er til?

Í öðru lagi langar mig að spyrja formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall, þar sem hann er formaður þeirrar nefndar sem fjallar meðal annars um málefni dómstólanna, lögreglunnar, Landhelgisgæslunnar og fleiri stoða í okkar góða samfélagi: Hvernig líður honum með það að mæla fyrir þessu nefndaráliti þar sem má segja að formaðurinn hafi gefið skít í niðurstöðu Hæstaréttar, álíti hana svo léttvæga að ekki eigi að taka hana til greina? Með því að tala fyrir þessu máli og leggja fram breytingartillögur er þingmaðurinn í raun að sniðganga stjórnarskrána.

Í málinu á undan var Hæstiréttur felldur út úr lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna af sama manni og um er að ræða formann allsherjarnefndar. (Forseti hringir.) Hefur þingmaðurinn hreina samvisku gagnvart þrígreiningu ríkisvaldsins (Forseti hringir.) í þessum tveimur málum?