139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í stuttu máli reyna að svara þeirri spurningu sem varðar kostnaðinn. Gera má ráð fyrir því að hann gæti hlaupið á 15–25 milljónum, sá viðbótarkostnaður sem yrði til með lengingu á starfstíma þingsins. Ég gef það svar án þess að hafa reiknað það nákvæmlega en kostnaðurinn hleypur á þessu bili. Ég vil líka minna hv. þingmann á að fyrir tveimur árum flutti Framsóknarflokkurinn, sem hv. þingmaður tilheyrir, tillögu um að boðað yrði til stjórnlagaþings sem ætti að vera bindandi, gera ætti breytingar á stjórnarskránni sem gerðu það kleift, og átti að starfa í að minnsta kosti ár, ef ég man rétt, og hefði haft í för með sér kostnað upp á 2 milljarða. Það skýtur því skökku við þegar hv. þingmaður, sem tilheyrir flokknum sem lagði þetta til, gagnrýnir nú þann kostnað sem til fellur í þessu verki.

Hvað varðar orðalag í ræðu hv. þingmanns áðan, um það með hvaða hætti menn umgangast niðurstöðu Hæstaréttar, án þess að ég fari að hafa það eftir hv. þingmanni, enda ekki við hæfi að mínu mati, kom það skýrlega fram að með þessu er ekki verið að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Það er verið að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar með leið sem að mati stjórnskipunarfræðinga stangast ekki á við stjórnarskrá Íslands. Það er ótvíræð niðurstaða og hv. þingmaður getur tæplega neitað því að það sé ótvíræð niðurstaða þeirrar vinnulotu sem á undan er gengin í þessu máli á vettvangi allsherjarnefndar.