139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ber að nefna að allir þeir stjórnskipunarfræðingar sem komu fyrir allsherjarnefnd settu sig mjög á móti þeirri leið sem farin er vegna þess að hún fer á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í úrskurði sínum. Það er blekking, í besta falli orðaleikur, að segja að þessir sérfræðingar hafi lagt til að þessi leið yrði farin, svo var ekki. En þeir töldu jafnframt að þetta væri ófær leið lagalega þrátt fyrir að tillagan færi ekki beint á móti stjórnarskrá, þar liggur munurinn. Ég er mjög hugsi yfir framgöngu formanns allsherjarnefndar í þessu máli og síðasta máli í þinginu þar sem um æðsta dómstól landsins er að ræða og verið að ræða sjálfa stjórnarskrána.

Þingmaðurinn leggur fram breytingartillögu og svarar mér því að þessi aukamánuður komi til með að kosta 15–25 millj. kr. Ég hef upplýsingar um það að þessi kostnaður liggi að minnsta kosti á bilinu 50–75 millj. kr., það er ágætt ef þingmenn eru að leggja fram breytingartillögur í gríð og erg við mál í þinginu að þeir viti alla vega hvað gjörningurinn kostar. Svo virðist vera að það skipti engu máli hvað þetta stjórnlagaráð kostar hjá ríkisstjórnarflokkunum, þetta skal keyra í gegn.

Hv. þingmaður fór líka yfir það að ég tilheyrði flokki sem lagði til að sett yrði á stofn bindandi stjórnlagaþing. Það er rétt. Þegar vinnsla málsins fór af stað varð það niðurstaðan að ekki er hægt að hafa bindandi stjórnlagaþing og hér er ekki hægt að hafa ráðgefandi stjórnlagaþing því að með þessari tillögu er búið að ýta hugmyndinni um stjórnlagaþing út af borðinu um aldur og ævi. Þingmaðurinn skal átta sig á því að með þessari tillögu er lagt til að það stjórnlagaþing komi ekki til baka sem þessar hugmyndir voru byggðar á á sínum tíma. En það virðist ekki vera sami skilningur hjá þingmanninum. (Forseti hringir.) Þetta er leið ríkisstjórnarinnar til að bjarga kostnaðinum og setja á stofn (Forseti hringir.) stjórnlagaráð sem er nokkurs konar spegilmynd eða smækkuð mynd af stjórnlagaþingi.