139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka fram í svari mínu við hv. þingmann að eins og fram kom í nefndarálitinu kemur stjórnlagaráðið til með að setja sér sjálft starfsreglur og mun hafa frjálsari hendur með það að ákveða vinnulag sitt og hvernig það háttar sinni vinnu. Það er að því leytinu til mjög frábrugðið stjórnlagaþinginu sem hafði mjög skýran ramma að þessu leyti.

Hins vegar vil ég líka benda á að það er mikill umboðsmunur þegar kemur að skipan ráðsins sem áður, þegar það hét stjórnlagaþing, sótti umboð sitt til þjóðarinnar. Það voru þó altént þjóðkjörnir einstaklingar en nú sækja þessir einstaklingar umboð sitt til okkar sem sitjum á Alþingi, sem erum þjóðkjörnir alþingismenn, (Gripið fram í: Er þá eitthvað að marka það?) Það er því töluverður munur þar á. Það þýðir ekki að það verði ekkert að marka vinnu þeirra, það er umboðsmunur á þeirri afurð sem hún kemur til með að skila af sér.

Stjórnarskráin er mjög skýr um það hvað gera skuli þegar forseti neitar að staðfesta lög, 26. gr. segir að þá skuli þau send í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var hins vegar ekki gert þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin árið 2004. Var það þá stjórnarskrársniðganga, mætti spyrja? Eða var ekki verið að reyna að fara á svig við niðurstöðu forseta sem sagði að þjóðin ætti að fá að segja álit sitt á lögunum? Nei, málið var dregið til baka og það varð engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Var það sniðganga? Ég er ekki sannfærður um það.

Mér hefur sýnst á lögfræðinni að hún snúist meira og minna öll um það að finna leiðir til (Forseti hringir.) að framkvæma ákveðna hluti þannig að þeir stangist ekki á við lagabókstafinn. Hér er um sambærilegan hlut að ræða.