139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Þetta voru margar spurningar, hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er það svo að Hæstiréttur sker úr um hvort tilteknar athafnir fari í bága við lög, eins og í þessu tilviki, hvort eitthvað standist lög og sker úr um réttarágreining manna. Hæstiréttur og dómstólar almennt koma ekki með lausnirnar í staðinn. Það gera dómstólar ekki. Dómstólar eru til að skera úr um í réttarágreiningi, ekki til að svara því sem stundum eru kallaðar lögspurningar og ekki til að koma með einhverjar lausnir í staðinn. Það er ekki hægt að ætlast til þess af dómstólum, hvorki hér á landi né annars staðar. Nóg um þetta.

Ég leitaði ekki að leiðsögn í niðurstöðu Hæstaréttar, en ég tel hins vegar að það sem Hæstiréttur telur að gangi ekki upp eigi ekki að endurtaka. Við getum orðað það svo. Það er neikvæð nálgun en ekki jákvæð ef hægt er að nefna það svo.

Varðandi það, sem er auðvitað lykilspurning líka, hvernig ég telji að sú tillaga sem ég legg til samrýmist niðurstöðu Hæstaréttar þá vil ég svara því þannig að ég held að Alþingi hafi verið nokkrir kostir færir til að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar. Ég lýsti því strax yfir 24. nóvember í starfi samráðshópsins að ég teldi að sú leið sem hér er lögð til og hér er til umræðu væri ekki tæk. En það hefði verið hægt að efna til kosninga að nýju, fara í uppkosningu eða endurskoða lögin um stjórnlagaþing fram og til baka og kjósa upp að nýju á grundvelli nýrra laga. Það væri líka, eins og við erum að leggja til, hægt að leggja niður hugmyndina, fyrirbærið stjórnlagaþing, og velja einhverja aðra leið til að endurskoða stjórnarskrána. Það er ekki að sniðganga á niðurstöðu Hæstaréttar.