139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Kannski erum við hv. þingmaður þá komnir á sömu blaðsíðuna. Þetta er nákvæmlega laukrétt sem hann bendir á að Hæstiréttur kemur ekki með lausn á þessu máli. Hennar erum við að leita hér, ef ég hef skilið það rétt, við erum að leita lausnar á því að Hæstiréttur úrskurðaði þessar kosningar ógildar. Þá er bara allt undir. Ég verð að segja að mér finnst það ekkert sérstaklega farsælt að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að kosningarnar væru ógildar. Ég hefði helst viljað að hann gerði það ekki en hann gerði það engu að síður og þá er alveg augljóst að við verðum að lúta því með því að gefa ekki út kjörbréf. Það er augljóst að við getum ekki haldið áfram með stjórnlagaþingið í óbreyttri mynd, um það erum við sammála, en upp að þeim punkti komumst við ekki lengra í að bera virðingu eða túlka niðurstöðu Hæstaréttar. Þegar við erum komnir að þeim punkti þá verðum við einfaldlega að leita lausna og taka um það pólitíska ákvörðun hvert við viljum fara næst.

Hv. þingmaður er með eina tillögu í því efni. Hún er sú að við hættum einfaldlega við stjórnlagaþing og allt sem er því líkt í raun og veru, að við tökum algera U-beygju í málinu, en honum verður á sama tíma tíðrætt um það að við í þingsal sýnum ákvörðun Hæstaréttar einhverja umframvirðingu fyrir utan það að gefa ekki út kjörbréf og efna ekki til stjórnlagaþingsins. Ég get ekki séð að tillaga hv. þingmanns um að taka algera U-beygju í málinu og efna ekki til stjórnlagaþings yfir höfuð feli í sér einhverja sérstaklega miklu meiri virðingu fyrir niðurstöðu Hæstaréttar en mínar áherslur, sem eru að halda áfram. (Gripið fram í.) Já, efna ekki til stjórnlagaþings en breyta þessu þá í stjórnlagaráð, virða vilja 80 þúsund kjósenda á Íslandi. Það var ekkert kosningasvindl í þessu máli. Við getum vel haldið áfram og borið virðingu fyrir því endanlega markmiði okkar að breyta stjórnarskránni á Íslandi í sátt við fólkið í landinu. Það er ekki síst mikilvægt að bera virðingu fyrir því markmiði.