139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá grundvallarmisskilningur virðist vera uppi í þessu máli þegar maður hlýðir á andsvör hv. þm. Birgis Ármannssonar að niðurstaða Hæstaréttar hafi falið í sér einhvers konar áfellisdóm yfir hugmyndinni um stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð. Svo er alls ekki. Dómur Hæstaréttar sneri fyrst og síðast að kosningunni sjálfri.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í hin pólitísku rök sem liggja til grundvallar framgöngu meiri hluta allsherjarnefndar í þessu máli vegna þess að sá sem hér stendur var þeirrar skoðunar, og það hefur komið fram opinberlega, að réttasta og eðlilegasta leiðin hefði verið uppkosning, að endurtaka kosninguna og endurtaka kjördaginn. Þegar það lá fyrir að forseti Íslands synjaði lögunum um Icesave staðfestingar fannst þeim sem hér stendur einhlítt að farið yrði í uppkosningu samhliða kosningu um Icesave-samninginn. Þá bar svo við að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komu hér í ræðustól og lögðust mjög eindregið gegn því að sú leið yrði farin og færðu fyrir því ágætisrök að mörgu leyti sem okkur fannst ástæða til að taka tillit til, hlusta á og fara eftir.

Er það skoðun hv. þingmanns, í ljósi þess að ekki var fært að blanda þessu tvennu saman, að réttasta leiðin hefði verið að halda aðrar kosningar? En meðal þeirra pólitísku raka sem talin eru til er sá kostnaður sem uppkosning hefur í för með sér. Teldi hv. þingmaður þá réttast, í ljósi vilja meiri hluta Alþingis, að fram færi nú á vormánuðum önnur atkvæðagreiðsla með tilheyrandi kostnaði?