139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega þyngra en tárum taki að við skulum vera að ræða þetta mál, tillögu um að breyta ógildri stjórnlagaþingskosningu í þingsályktunartillögu um að skipa stjórnlagaráð og að tilnefna eigi þá aðila sem hlutu kosningu sem ógilt var af Hæstarétti. Ég vil taka það fram að málflutningur minn beinist ekki að því fólki sem á í hlut, þessum 25-menningum, enda á það samúð mína alla. Það er agalegt að vera hálfplataður í kosningar. Það voru ekki aðeins þessir 25-menningar heldur 522 einstaklingar sem gáfu kost á sér til stjórnlagaþings.

Úrslit voru fengin á mjög einkennilegan hátt sem kemur fram í nefndaráliti mínu og upp úr stendur að kosningin var kærð. Þrír aðilar kærðu kosninguna til Hæstaréttar og Hæstiréttur ógilti kosninguna. Ég er stolt af því að vera talsmaður Hæstaréttar og dómskerfisins á Alþingi því að í 2. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um þrígreiningu ríkisvaldsins, að löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið skuli vera sem mest óháð hvert öðru, en svo virðist vera sem ríkisstjórnarflokkarnir hafi lagst í víking til að tala niður dómskerfið, tala niður bæði héraðsdóm og sérstaklega Hæstarétt. Finnst mér einkar alvarlegt að formaður allsherjarnefndar skuli fara þar fremstur í flokki því að undir allsherjarnefnd falla einmitt dómsmálin, löggæslumálin og önnur alvarleg mál. Ég er mjög slegin yfir því hvernig formaðurinn hefur talað í dag, ég verð að segja það alveg eins og er, og ég hef velt því fyrir mér hvort viðkomandi aðili sé yfir höfuð hæfur til að fara með málefni dómstólanna miðað við það hvernig umræðustíll hans gagnvart Hæstarétti er.

Það vill svo til að fram eru komnar nokkrar breytingartillögur við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Ein tillagan gengur út á það að um leið og ef tillagan verður samþykkt falli jafnframt niður lögin um stjórnlagaþing. Það er einstaklega skemmtilegt að þetta skuli koma fram strax á eftir málinu sem var til umræðu og varð að lögum áðan, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, því að röksemdir meiri hluta Alþingis, ríkisstjórnarflokkanna, Róberts Marshalls, hv. formanns allsherjarnefndar, þingmanna Vinstri grænna og samfylkingarþingmanna, voru þær að það væri réttlætanlegt að taka Hæstarétt út sem æðsta kærustig í lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslu af því að vísað væri í það á öðrum stað í lögunum um stjórnlagaþing að með kærur ætti að fara fyrir almennum dómstólum. Þegar þetta mál verður afgreitt frá þinginu, hvort sem það verður fellt eða ekki, stendur hér breytingartillaga um að þessi lög verði felld úr gildi og þar með eru rökin fyrir þeirri lagasetningu sem var afgreidd áðan fallin um sjálf sig, því að verið var að vísa í lög sem voru notuð í eitt skipti, lögin um stjórnlagaþingið, og þar með er það farið. Þetta er nú dálítið skemmtilegt. En það vantar yfirsýnina og kannski smálögfræðiþekkingu hjá þeim aðilum sem fjalla um þessi mál.

Tillagan sem liggur fyrir þinginu, tillaga um skipun stjórnlagaráðs, er lögð fram af þremur þingmönnum úr þremur flokkum. Ekki var viðlit að gera þetta að ríkisstjórnarmáli, virðist vera, því að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, setti sig strax á móti málinu. Ekki var reynt að fara með þetta sem nefndarmál í gegnum allsherjarnefnd því að ég hefði ekki tekið þátt í því, sem dæmi, að skrifa undir mál af slíkum toga. Það vill nefnilega svo til að framan af var þetta mál unnið nokkuð faglega í allsherjarnefnd allt þar til sett var á mikil tímapressa og okkur í minni hlutanum var t.d. neitað um að kalla fyrir nefndina okkar færustu stjórnskipunarfræðinga. Nefni ég þar t.d. Björgu Thorarensen og Eirík Tómasson sem hafa farið fremst í flokki í Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti. Það var ekki talið rétt að fá þau fyrir nefndina. Formaður allsherjarnefndar, Róbert Marshall, taldi þess ekki þurfa. En framan af gekk nefndarstarfið ágætlega. Það er náttúrlega von minni hluta að geta haft áhrif á meiri hluta þegar minni hlutinn sér að meiri hlutinn er að fara með mál út í skurð en því var ekki að heilsa í þessu máli.

Mig langar til að telja upp þá aðila sem komu á fund nefndarinnar, með leyfi forseta: Fremstan skal nefna Róbert Spanó frá Háskóla Íslands, Sigurð Líndal, sem allir þekkja, Daða Ingólfsson og Geir Guðmundsson frá Stjórnarskrárfélaginu, Þorstein Magnússon og Þórhall Vilhjálmsson frá skrifstofu Alþingis, Ragnhildi Helgadóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Jón Kristjánsson, fyrrverandi alþingismann og formann stjórnlaganefndar sem starfaði á árabilinu 2005–2007, Ingveldi Einarsdóttur frá Dómarafélaginu, Evu Bryndísi Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands, og síðast en ekki síst Guðrúnu Pétursdóttur, formann stjórnlaganefndar.

Allir þessir aðilar voru sammála um að þessi leið væri ekki fær. Að vísu voru aðilarnir frá Stjórnarskrárfélaginu á því að fara ætti þessa leið en þeir fræðimenn sem ég taldi upp voru allir á því að þessi leið væri ekki fær og ráðlögðu nefndinni eindregið frá því að fara hana. Það var einn aðili sem var mjög afgerandi um að málið fengi framgang og taldi t.d. að ágalli á kosningunum hefði ekki verið svo stórvægilegur að það réttlætti það að kosningarnar væru dæmdar ógildar en það var fulltrúi forsætisráðuneytisins, Ágúst Geir Ágústsson. Þarna sjáum við á hvaða bensíni þetta mál er keyrt. Það vita allir að stjórnlagaþing er barn hæstv. forsætisráðherra og hefur alla tíð verið þó að hæstv. forsætisráðherra hafi kennt öllum öðrum um nema sjálfri sér og ríkisstjórninni þegar búið var að dæma kosningarnar ógildar.

Það skal og tekið fram að Framsóknarflokkurinn hafði það á stefnuskrá sinni fyrir síðustu alþingiskosningar að efna til bindandi stjórnlagaþings. Þegar farið var að vinna málið og skoða það betur kom í ljós að ekki er hægt að halda stjórnlagaþing sem bindur stjórnvöld eða Alþingi með þeim hætti sem tillögurnar gerðu ráð fyrir. Þess vegna er það jafnmikilvægt fyrir Framsóknarflokkinn og aðra stjórnmálaflokka að vanda vel til verka þegar verið er að semja kosningastefnuskrá.

Þingmenn Framsóknarflokksins greiddu því flestir atkvæði að hér færi þá fram ráðgefandi stjórnlagaþing, þegar þau lög voru til umræðu í fyrrasumar, á grunni þess að það væri skárra en ekki neitt að hafa ráðgefandi stjórnlagaþing fyrst bindandi stjórnlagaþing væri ekki fært samkvæmt stjórnarskrá. Stjórnlagaþingið kom með lögunum og stjórnlagaþingið fór með úrskurði Hæstaréttar. Hugmyndin um stjórnlagaþing er farin hjá garði og hún kemur ekki aftur. Sú stemning sem myndaðist í kringum setningu þeirra laga náði aldrei flugi, það sést best í dræmri kjörsókn þegar kosið var til þingsins.

Tæplega 37% þjóðarinnar sáu ástæðu til að mæta og kjósa. Líklega má rekja það til þess og ég vona svo sannarlega að það megi rekja til þess að búið var að stilla upp afar flóknum kosningaaðferðum en ekki til þess að Íslendingar séu að missa áhuga á kosningum því að það væri skelfileg staða fyrir þetta gamla, gróna lýðræðisríki.

Það var nefnilega svo, frú forseti, að frumvarpið var fullbúið og var að fara í gegnum lokaumræðu þegar skyndilega komu róttækar breytingar inn í frumvarpið að beiðni ákveðinna aðila sem allir þekkja hverjir eru. Ég man að ég var stödd á Akureyri þegar ég fékk hringingu frá formanni allsherjarnefndar þar sem hann kynnti að það ætti að fara að taka upp númerakerfi, það ætti að taka upp rafrænt talningarkerfi, það ætti taka upp rafræna kjörskrá og ég mótmælti kröftuglega. Þá glumdi í símanum setning sem ég man alla tíð: Já, svo þú ætlar að vera manneskjan sem ætlar að stoppa stjórnlagaþingið.

Ég hef séð eftir því síðan að sýna þá meðvirkni að koma í þingið, komið fram á kvöld, með það á bakinu að ég væri manneskjan sem væri að stoppa stjórnlagaþingið. Út af því t.d., frú forseti, var ég að berjast svo hart fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðsluumræðunni áðan að kæruleið til Hæstaréttar væri fær og væri inni í lögunum vegna þess að ég ætla ekki að gera þau mistök aftur að hafa látið undan þrýstingi í þinginu, hafa tekið þátt í þeirri meðvirkni sem leiddi til þess að stjórnlagaþingskosningin var dæmd ógild.

Það vissu það allir allan tímann, og það má rekja það í ræðu minni sem ég hélt þegar málið var til afgreiðslu, að ég efaðist mjög um númeraröðun á frambjóðendum og líka það að setja ætti upp kosningakerfi þar sem fólk gæti æft sig heima rafrænt, slegið inn nöfn og númer og tékkað af andlit og stemmt þetta af. Og ég spurði: Af hverju í ósköpunum er þá ekki hreinlega höfð rafræn kosning? Fyrir þetta var gert grín að mér, m.a. í Fréttablaðinu en það er ekki nýtt þegar Fréttablaðið er annars vegar að gert sé grín að alvarleika málsins, enda fór það svo að þessi kosning var dæmd ógild.

Það er líklega rétt að ég lesi í framhaldi af þessu það sem stendur í nefndaráliti mínu einmitt um talninguna, en það er mjög alvarlegt sem þar kemur fram vegna þess að það var einstaklingur sem sat í landskjörstjórn í Reykjavík sem kom pappírum til okkar í allsherjarnefnd. Þar var hann búinn að gera úttekt á því hvernig staðið hefði verið að talningu. Talningin fór fram á miðlægum stað, hún fór fram í Reykjavík, og það var nú svo að þegar verið var að koma atkvæðaseðlunum í gegnum talningarvélina neitaði hún oftar en ekki seðlum sem voru þar því að það átti að merkja við fjórum sinnum 25 tölur ef kjósandi notaði allan seðilinn.

Mig langar til þess að lesa hér orðrétt upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Sumir innsláttaraðilar stunduðu „skapandi“ úrlestur, giskuðu á tölu, og breyttu svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta talan var „misskráð“ hjá kjósanda og tóku innsláttaraðilar sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu. Þess ber að geta að kerfið bauð upp á að öllum tölum yrði breytt svo tæknilega séð gátu innsláttaraðilar skráð þá tölu sem þeim hugnaðist.“

Þarna er landskjörstjórnarmaður að lýsa því hvað fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur þessa nótt og hvernig atkvæðaseðlunum var hreinlega breytt með skapandi hugsun til að númerin gætu passað við þá frambjóðendur sem voru í boði. Þetta er mjög alvarlegt og allsherjarnefnd vissi ekki af þessu fyrr en nú fyrir nokkrum dögum, og ekki vissi Hæstiréttur af þessari skapandi hugsun talningarfólksins þegar hann úrskurðaði kosninguna ógilda. Öllu tali um að Hæstiréttur hafi farið út fyrir valdmörk sín með því að ógilda kosninguna vísa ég því til föðurhúsanna, þetta er jú æðsti dómstóll landsins og við deilum ekki við dómarann.

Ætlist alþingismenn til þess að landsmenn fari að þeim lögum sem hér eru sett verða þeir sjálfir að bera þá virðingu fyrir dómstólum og landslögum eins og þá ábyrgð sem þeir setja á herðar þegnum sínum. Svo einfalt er það.

Mig langar nú til að fara aðeins ofan í lögin um stjórnlagaþingið. Það er nefnilega þannig að í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, stendur í 3. mgr., með leyfi forseta:

„Við samþykkt laga þessara skal Alþingi kjósa sjö manna stjórnlaganefnd sem verði sjálfstæð í störfum sínum. Nefndin fái það hlutverk að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni. Þjóðfundinn skal halda tímanlega áður en kosið verður til stjórnlagaþings samkvæmt lögunum. Miða skal við að þátttakendur á þjóðfundi verði um eitt þúsund talsins og skulu þeir valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá þannig að gætt sé að eðlilegri skiptingu þátttakenda af landinu öllu og að kynjaskipting sé sem jöfnust. Úrtakið skal bundið við þá sem eiga kosningarrétt til stjórnlagaþings og lögheimili á Íslandi. Á þjóðfundinum skal leitast við að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings varðandi stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni og skal nefndin vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman.

Nefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá þegar það kemur saman.“

Þessi nefnd er búin að vinna mjög gott starf og ég vil taka það fram að nefnd sem starfaði hér undir umsjá og forustu Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi alþingismanns Framsóknarflokksins, skilaði líka miklu og góðu starfi. Hún starfaði á árabilinu 2005–2007 og þess ber að geta að mikil gagnasöfnun átti sér stað þá og var gagnagrunnur fyrir nefndina sem tók svo til starfa samkvæmt því bráðabirgðaákvæði sem ég var að lesa upp.

Það vill svo til að þessi nefnd stóð jafnframt fyrir þúsund manna þjóðfundi sem er yfirstaðinn og þar safnaðist mikið af gögnum. Hlutverk hennar var, eins og ég las upp áðan, að annast söfnun og úrvinnslu allra gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst gætu stjórnlagaþinginu og leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþingsins um breytingar á stjórnarskránni.

Þetta er mjög afgerandi umboð sem nefndin hefur. Hún hefur nánast lokið störfum, þessi sjö manna stjórnlaganefnd, en hún var skipuð á fundi Alþingis 16. júní 2010 samtímis því að lögin um stjórnlagaþing voru samþykkt.

Mikill einhugur var um að hafa í stjórnlaganefndinni óumdeilt fólk. Það var að sjálfsögðu ákvæði um kynjakvóta og það var samstaða um þetta. Hver þingflokkur fékk að tilnefna fjóra til sex aðila og nöfn þeirra aðila voru lögð fram og smám saman síaðist út og eftir stóðu sjö einstaklingar, frambærilegir einstaklingar sem unnu þetta starf vel og vandlega. Ég nefndi áðan að Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, kom á fund allsherjarnefndar og greindi nefndinni frá því í trúnaði hvar málið væri statt. Ég verð að segja að ég fylltist mikilli bjartsýni og ég er ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli með því að segja að nefndin hefur svo sannarlega starfað vel enda úrvalsfólk þar á ferð, og eins og formaðurinn sagði, gættu þau alltaf að því að starfa eftir lögunum. Þeirra hlutverk var að safna gögnum, halda þjóðfundinn og skila svo tillögu til stjórnlagaþings. Þessi vinna er alls ekki ónýt og þess vegna kem ég til með að lesa upp breytingartillögu á eftir um að fela þessari nefnd enn frekara hlutverk en hún hefur nú innt af hendi.

Það er nefnilega annað sem liggur undir þeirri tillögu sem er nú fyrir þinginu um skipun stjórnlagaráðs. Það er kostnaðurinn sem er nú þegar til fallinn. Það á að breiða yfir þann kostnað, sem er á bilinu 400–500 milljónir, með því að bæta við enn frekari kostnaði sem endar í hátt í 600–700 milljónum með því að hafa stjórnlagaráð og koma því á fót. Það er þá hægt að setja það í ríkisreikninginn að það sé með þeim hætti í stað þess að hætta núna og hlusta á Hæstarétt. Hæstiréttur ógilti kosninguna, ríkisstjórnin sjálf er hætt við stjórnlagaþingið með því að fylgja eftir því máli sem hér er til umræðu. Ríkisstjórnin sjálf blés stjórnlagaþingið út af borðinu, ríkisstjórnin gerði það sjálf. Það sá enginn annar um það fyrir ríkisstjórnina.

Mig langar til að lesa upp þá sem voru kosnir í stjórnlaganefndina til að sýna það og sanna að þetta er þungavigtarnefnd og þeir aðilar sem eru í nefndinni hafa mikla þekkingu. Eins og ég sagði áðan leiddi Guðrún Pétursdóttir nefndina og var formaður hennar. Hún er framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða og dósent í frumulíffræði og fósturfræði við hjúkrunardeild Háskólans. Hún hefur m.a. komið víða við í samfélaginu. Aðrir nefndarmenn eru:

Aðalheiður Ámundadóttir lauk BA-prófi í lögfræði við Háskólann á Akureyri 2009 og stundar nú meistaranám í lögfræði við sama skóla. Hún hefur skrifað greinar og haldið fjölda erinda á sviði mannréttinda og stjórnskipunarréttar, m.a. fjallaði BA-ritgerð hennar um réttaráhrif mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri grunnnáms við lagadeild Háskólans á Akureyri og forstöðumaður Heimskautaréttarstofnunarinnar. Hann hefur mikla reynslu úr hinu akademíska umhverfi.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands. Hún hefur komið víða við og er vel þekkt af sínum góðu störfum að stjórnskipunarmálum á Íslandi.

Ellý K. Guðmundsdóttir, sviðsstýra umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Hún lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1990.

Njörður P. Njarðvík, hann þekkja allir. Hann lauk cand. mag. gráðu í íslensku og sænsku frá Háskóla Íslands árið 1964 og hefur bæði skrifað mikið og skipt sér af stjórnarskrármálefnum síðan þau komust á flot hér í hruninu.

Skúli Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og er starfandi ritari EFTA-dómstólsins. Hann lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1995. Mig minnir að hann sé jafnvel orðinn dómari við EFTA-dómstólinn, ég man það ekki alveg því að ég var að prenta þetta út af stjórnlagaþingsvefnum.

Þetta eru þeir sjö einstaklingar sem valdir voru af mikilli kostgæfni hér þegar nefndin var skipuð.

Rétt er að minnast á það í framhaldi af þessu að það er breytingartillaga í því nefndaráliti sem ég skrifa undir, og það er best að ég kynni hana hér til sögunnar því að ég ætla þessu fólki, þessari stjórnlaganefnd mikið hlutverk í framhaldinu og les ég þá breytingartillöguna, með leyfi forseta:

„Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis, að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis, að framlengja starfstíma stjórnlaganefndar sem skipuð var skv. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, sem fái það verkefni að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Stjórnlaganefnd meti sjálfstætt og án afskipta löggjafans þau atriði sem hún telur að eigi erindi í endurskoðaðri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Nefndin skili tillögum sínum í frumvarpsdrögum til Alþingis eigi síðar en 1. júní 2011.“

Þessa tillögu legg ég fram vegna þess að vinna stjórnlaganefndar hefur verið afar vönduð, og svo kæmi þetta mál, þessi frumvarpsdrög fyrir þingið og fengi meðhöndlun eins og hvert annað þingmál. Það kæmi hér í 1. umr. þar sem þingmenn mundu tjá sig og svo mundi það fara til allsherjarnefndar milli 1. og 2. umr. Eins og menn vita geta allir sent inn álit og umsagnir um þau mál sem eru til umfjöllunar í nefndum þingsins og á þann hátt gætum við komið til móts við það að þjóðin komi að því að semja nýja stjórnarskrá. Ég sé ekkert að því heldur að fundir allsherjarnefndar væru opnir fyrir almenning á meðan á þessu stæði. Þarna værum við þá komin með leið til að leysa þetta mál en eftir standa náttúrlega samt sem áður þau hundruð milljóna sem þegar hafa farið í áfallinn kostnað. Þó má segja að þjóðfundurinn hafi ekki verið fyrir bí vegna þess að það sem kom út úr honum stendur náttúrlega eftir sem plagg.

Mig langar til að grípa niður í nefndarálitið. Þar segir fyrst:

„Samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, fer Alþingi með stjórnskipunarvaldið. Til að breyta stjórnarskrá skal leggja fram frumvarp til stjórnskipunarlaga á Alþingi sem fær sömu meðferð og önnur frumvörp. Verði frumvarpið að lögum eftir þriðju umræðu er þing rofið þá þegar og boðað til alþingiskosninga. Frumvarpið sjálft fer því í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða alþingiskosningunum.“

Þetta vill oft gleymast því að það er krafa um að þjóðin fái að koma að því í þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja nýja stjórnarskrá fyrir en það er það sem gerist í þingrofi og þegar boðað er til nýrra kosninga er þjóðin samhliða að samþykkja stjórnarskrá. Þessu verðum við að halda á lofti því að þetta virðist sífellt gleymast.

„Þegar nýtt þing kemur saman er það fyrsta verk nýkjörinna þingmanna að greiða atkvæði á ný um frumvarpið óbreytt, sé það samþykkt staðfestir forseti lögin með undirritun sinni og þá tekur breytingin á stjórnarskránni gildi. Munurinn á löggjafarvaldi og stjórnskipunarvaldi er mikill. Löggjafavald hafa 63 þingmenn auk forseta. Stjórnskipunarvald hafa 63 þingmenn, og nýir þingmenn á nýkjörnu þingi auk forseta.“

Hefðu t.d. verið lagðar til breytingar á stjórnarskrá við alþingiskosningarnar 2009, hefðu 27 nýir þingmenn að auki greitt atkvæði um frumvarpið og hefðu því 90 lýðræðislega kosnir þingmenn staðið að stjórnarskrárbreytingunum, auk þess hluta kosningarbærra manna sem mættu á kjörstað og greiddu atkvæði um frumvarpið.

„Kosningin til stjórnlagaþings var dýrkeypt tilraun. Hún var með allt öðrum hætti en tíðkast hefur hér á landi. Með kosningunum var blandað saman mörgum aðferðum sem átti að flýta þeirri þróun að gera landið allt að einu kjördæmi, þ.e. að vægi atkvæða yrði það sama óháð búsetu, og talningin fór fram á einum miðlægum stað undir eftirliti og stjórn landskjörstjórnar. Ekki voru birt úrslit eftir kjördæmum heldur fyrir landið í heild. Í fyrsta sinn var notaður vélbúnaður í talningu.“ — Og svo má ekki gleyma því að þetta var fyrsta persónukjörskosningin.

„En þarna var augljóslega of bratt farið með nýjungar því að í ljós kom að ekki varð við neitt ráðið þrátt fyrir dræma kjörsókn. Einungis tæp 37% kosningarbærra manna tók þátt í kosningunum og er það mikið áfall fyrir ríkisstjórnina sem hefur lengst af talað fyrir lýðræðisumbótum. Ríkisstjórnin hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að hætta alfarið við allar hugmyndir um stjórnlagaþing eftir úrskurð Hæstaréttar um ógildi kosninga til stjórnlagaþings. Er það rétt ákvörðun að því leyti að ekki verður lengra farið með hugmyndir um stjórnlagaþing nema kosið verði upp á nýtt og þá eftir mikið breyttum lögum.“

Miklir ágallar voru á framkvæmd kosninganna, svo miklir ágallar að þrjár kærur bárust eins og ég hef farið yfir. Það var því mikið lán að ákvæði um kærur vegna kosninganna voru sóttar til 2. mgr. 14. gr. laga, um framboð og kjör forseta Íslands, því að þá fóru kæruefnin beint til Hæstaréttar.

Með þingsályktunartillögu þeirri sem nú er til umræðu er farið á svig við niðurstöðu Hæstaréttar og hafa fræðimenn gengið svo langt að tala um stjórnarskrársniðgöngu og ég get tekið undir það. Ábyrgð flutningsmanna er því mikil. Og það er mikil ábyrgð að bera fram svona mál, sérstaklega í ljósi þess hve kostnaðurinn er orðinn mikill og líka hversu mikil ábyrgð það er að ganga á móti ráðgjöfum, þeim aðilum sem allsherjarnefnd kallar á fundi sína til að veita ráðgjöf.

Ég spurði mig oft að því þegar þetta mál var í allsherjarnefnd hvers vegna væri verið að kalla á gesti til að gefa álit sitt á málinu fyrir nefndinni þegar ráðgjöfin væri að engu höfð. Þetta minnir mig á freka krakka sem segja: Ég má þetta víst, ég á þetta, ég má þetta — alveg sama hvað foreldrarnir skammast í börnunum.

Mig langar aðeins til að minnast á hér í nefndarálitinu óafturkræfa kostnaðinn sem nú þegar er til fallinn vegna þingsins. Stjórnlagaþingskosningarnar sem nú hafa verið úrskurðaðar ógildar kostuðu þjóðina tæpar 300 millj. kr., kosningarnar sjálfar, og er áætlað að ef hætt yrði alfarið við stjórnlagaþingið nú yrði áfallinn kostnaður tæpar 500 millj. kr. Hálfur milljarður króna. Það væri hægt að gera mikið fyrir þá upphæð til að bjarga hér fátækum fjölskyldum, það væri hægt að kaupa mikinn mat fyrir þetta til að gefa fólki sem á um sárt að binda.

Þetta er í fylgiskjali sem var dreift og ég hvet fólk til að skoða hvernig kostnaðurinn skiptist en samkvæmt samantekt um kostnað sem var lögð fram og ég er að vísa í er talið að kostnaður við að halda áfram með stjórnlagaráð nú nemi rúmum 600 millj. kr., því að hér er lagt til að þeir sem setjast í stjórnlagaráð haldi fullu þingfararkaupi og forseti ráðsins hafi forsetalaun eins og þau eru í þinginu.

Ég ítreka hér í lokin að þeir einstaklingar sem voru kosnir á stjórnlagaþing eiga samúð mína alla. Það sem er sérstaklega athyglisvert er að ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið hafa hvergi komið fram og beðið þessa einstaklinga afsökunar á þeim hörmungum sem þeir hafa gengið í gegnum. Þetta fólk er búið að vera meira og minna í lausu lofti með ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, því að í þessu máli sem og öðrum var ekki hægt að gefa út neitt fast í hendi hvað skyldi gera, ekki fyrr en þessi tillaga kom skyndilega inn í þingið í þarsíðustu viku.

Herra forseti. Ég minni á að í nefndaráliti mínu er lögð fram breytingartillaga sem felur það í sér að sjö manna stjórnlaganefndin skili frumvarpsdrögum til (Forseti hringir.) Alþingis og skal það gerast fyrir 1. júní 201. Þar með er búið að leysa þann hnút sem upp er kominn varðandi stjórnlagaráðið, að Alþingi (Forseti hringir.) hefur stjórnskipunarvaldið og skal fara með það til framtíðar.