139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég taki spurningarnar í réttri röð er ég sammála því og svara því játandi að ríkisstjórnin er ekki í neinu sambandi við þjóð sína. Það er ekki bara sýnt í þessu máli heldur öllum öðrum málum og ríkisstjórnin skilur raunverulega ekki út á hvað lífið í dag gengur og ræður náttúrlega ekki við að stjórna landinu. Þess vegna óska ég þess að hún verði farin frá fyrir vorið.

Ég var jafnslegin og þingmaðurinn yfir þeirri lýsingu þess aðila sem sat í landskjörstjórn hvernig skapandi úrlestur var notaður við þessa talningu. Ég er raunverulega mjög slegin yfir því. En þessi vitneskja kom ekki fyrr en síðustu dagana til allsherjarnefndar, þar sem félagar í stjórnarskrárfélaginu komu þessu til okkar með þeirri ósk að þessi aðili vildi koma þessu á framfæri. Þetta sannar enn frekar að Hæstiréttur var á réttri leið án þess að hafa vitneskju um þetta þegar hann ógilti kosninguna enda kom ekki kæruatriði fram um þetta. En þessi vitneskja hjá landskjörstjórn hefði náttúrlega átt að leiða til þess að kosningin hefði þá þegar um nóttina verið dæmd ógild því að ekki undir neinum kringumstæðum má krukka í atkvæðaseðla kjósenda, þrátt fyrir að það eigi að velja þann kost að reyna að túlka atkvæðaseðlana sem mest að þeirri niðurstöðu að sýna fram á hver vilji kjósandans er. En það er algjörlega bannað að mínu mati að vera að breyta því sem kjósandi er búinn að skrifa.

Þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar sem komu þarna fram. Ég er mjög fegin að þær upplýsingar komu fram vegna þess að kærurnar sem þremenningarnir lögðu fram gengu út á annað, þannig að þarna er þetta komið fram.

Um kostnaðinn vil ég (Forseti hringir.) fá að svara í seinna andsvari.