139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði í andsvari við mig að mjög sláandi er að það komi fram í meðförum nefndarinnar á málinu að sumir innsláttaraðilar stunduðu skapandi úrlestur, giskuðu á tölu, og breyttu svo passaði við frambjóðanda. Þetta eru mjög sláandi upplýsingar.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann. Ef það gerist að einhverjir sem voru kosnir til stjórnlagaþings muni ekki taka sæti í stjórnlagaráði er ætlunin sú að fara neðar eftir listunum. Eins og ég hef skilið þetta kosningafyrirkomulag er það með þeim hætti að ef einn gefur ekki kost á sér og fer út getur það riðlað allri röðinni þar á eftir. Það er ekki sjálfgefið að sá sem er næstur inn í röðinni verði það endilega ef einhver fer út af listanum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þessi umræða hafi farið fram í nefndinni.

Hv. þingmaður sagði einnig í ræðu sinni að nánast allir fræðimenn sem komu fyrir nefndina hefðu talið þessa leið ekki færa, hún væri ekki fær. Síðan kom fram í máli hv. þingmanns að hvorki Björg Thorarensen né Eiríkur Tómasson, sem eru viðurkenndir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti, voru ekki kölluð fyrir nefndina. Mig langar að spyrja: Hver var ástæðan fyrir því að ekki var hægt að verða við þeirri beiðni að kalla þessa tvo virtu sérfræðinga fyrir nefndina?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, sem hefur oft rætt um það í ræðustól Alþingis að vanda vinnubrögðin og koma lagaskrifstofu þingsins á fót: Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að stjórnarmeirihlutinn hafi ekki lært mikið af þeim mistökum sem urðu við kosningu til stjórnlagaþings? Mér finnst vinnubrögðin í kringum þetta mál vera alveg hreint með eindæmum og strax í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar um ógildingu á kosningu til stjórnlagaþings. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hefur hv. þingmaður ekki verulegar áhyggjur af því að (Forseti hringir.) stjórnarþingmönnum skuli ekki einu sinni bregða við úrskurð Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar heldur er haldið áfram á sömu braut með sömu vinnubrögðum?