139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Ég ætla fyrst að svara þessu með kostnaðinn. Sokkinn kostnaður er nú þegar 500 milljónir, 500 milljónir farnar út um gluggann. Svo ég taki sem dæmi þá kostar rekstur St. Jósefsspítala, kvennadeildarinnar þar, 300 milljónir á ári, og talandi um það að konur ættu frekar að halda starfinu, ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli vera komið í þann farveg sem þetta er komið í.

Varðandi kosningu þessara 25 manna þá spurði ég einmitt ítrekað um hvernig það væri. Ellefu aðilar hlutu bindandi sætishlut í stjórnlagaþingskosningunni og ég hef spurt að því ítrekað hvernig færi ef einn af þessum 11 hætti við kjörið, en vegna kosningareglunnar, svokallaðrar STV-kosningar, riðlast náttúrlega öll röðin niður við það því að það var alltaf verið að samnýta atkvæði. Flutningsmenn tillögunnar segja að það eigi ekki að taka tillit til þess, enda á ekki að taka tillit til úrskurðar Hæstaréttar. Það á ekki að taka tillit til úrslita kosninganna að þessu leyti, en jú, það á að taka tilliti til eins, þ.e. kynjakvótans. Það getur því vel farið svo að kona númer 35 hljóti þá sæti samkvæmt þessu.

Ég kem einmitt líka inn á það í nefndarálitinu að það eru ekki merki um góða lagasetningu að lög beinist að einstökum aðilum, þetta er að vísu þingsályktunartillaga, en þarna er verið að sérsmíða lög um kjarna fólks sem er raunverulega nafngreint þó að það komi ekki fram í tillögunni en það vita allir hvaða aðilar þetta eru. Ég efast um að það standist lagasetningu.

Varðandi stjórnlagaþingið þá spurði ég hv. þm. Róbert Marshall að því í dag af hverju lagaskrifstofufrumvarpið væri fast í allsherjarnefnd. Hann gerði grín að því. Ég vil jafnframt ítreka að það kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að það væri algjörlega nauðsynlegt að setja lagasetningarmálin í forgang til að hér gæti farið að skapast almennileg lagasetning. (Forseti hringir.) Varðandi Eirík Tómasson og Björgu Thorarensen var sagt að það væri ekki tími til að fá þau fyrir allsherjarnefnd (Forseti hringir.) og þar með var það afgreitt.