139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að hrósa hv. þingmanni fyrir þá breytingartillögu sem hún leggur hér fram sem miðar að því að starfstími stjórnlaganefndar verði framlengdur og henni verði falið það hlutverk að skila Alþingi tillögum til að vinna úr. Ég lít svo á að með þessum tillöguflutningi sé hv. þingmaður að gera tilraun til að tjasla upp á þá tillögu sem við ræðum hér sem að mínu mati er efnislega fráleit, enda hefur hún það að markmiði að hafa niðurstöðu æðsta dómstóls landsins að engu.

Ég tel hins vegar að betra væri að fara aðra leið, nefnilega þá að þingið sjálft tæki að sér það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána og byggði á vinnu stjórnarskrárnefndar, stjórnlaganefndar og þjóðfundar.

Mig langaði til að heyra hvort hv. þingmaður væri hugsanlega þeirrar skoðunar að sú leið væri tæk að hennar mati? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að við vinnslu þessa máls í nefndinni kom fyrir hana Jón Kristjánsson, fyrrverandi hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, en hann var einmitt formaður stjórnarskrárnefndarinnar sem lauk störfum árið 2007. Jón Kristjánsson, framsóknarmaður, er einlægur aðdáandi stjórnlagaþings og höfuðpaur þeirrar hugmyndar innan Framsóknarflokksins. Hann upplýsti allsherjarnefnd um það að vinna stjórnarskrárnefndar hefði verið vel á veg komin en eitt eitrað epli hefði komið í veg fyrir að niðurstaða fengist og það var endurskoðun á 26. gr. Það var vegna ágreinings á milli (Forseti hringir.) Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Nú hafa ýmsir atburðir gerst, herra forseti, sem kunna að leiða til þess að afstaða Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) til 26. gr. hafi breyst.