139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að það fari eins með klukkuna hjá mér og hjá hv. þm. Pétri Blöndal.

Varðandi orsökina fyrir hruninu og hvernig Íbúðalánasjóður lendir í því. Vissulega lendir Íbúðalánasjóður í nákvæmlega sama vanda og önnur fjármálafyrirtæki vegna hrunsins, þ.e. bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn með erlendu lánin sem virtust að sumu leyti vera hagstæð. Fólk tók þessi lán í stórum stíl eða tók önnur 90% eða jafnvel 100% lán hjá bönkum eða viðbótarlán hjá bönkum til að setja á fasteignir sínar. Fyrir vikið verða erfiðleikar almennt í samfélaginu við að greiða af fjárskuldbindingum miklu meiri. Auðvitað smitar þetta yfir á Íbúðalánasjóð eins og aðra. Ég held að þarna sé rekstrarformi Íbúðalánasjóðs að minnsta kosti ekki um að kenna. Hins vegar má vel færa fyrir því rök að gegndarlaus útlánastarfsemi í viðskiptabönkunum í aðdraganda hrunsins hafi að þessu leyti valdið vandræðum Íbúðalánasjóðs og sett stóran hóp lántakenda í þau vandræði að hann gat ekki greitt af lánum sínum. Íbúðalánasjóður finnur fyrir því eins og önnur fyrirtæki.

Hvort verðtryggingin sé ein af orsökunum fyrir vandanum — ég er nokkuð viss um að verðtryggingin hefur haft mikið að segja og jafnmikið hjá Íbúðalánasjóði eins og öðrum. Verðtryggingin hefur hækkað fjárskuldbindingar allra lántakenda, hvort sem þeir eru með lán hjá Íbúðalánasjóði eða verðtryggð lán hjá öðrum fjármálastofnunum. Auðvitað veldur þetta (Forseti hringir.) sama vanda þar og annars staðar.