139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[21:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, frá hv. meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.

Mig langaði að byrja að ræða um fjárhagsmálin. Við horfum eiginlega upp á skelfilega niðurstöðu. Við erum nýbúin að setja 33 milljarða inn í sjóðinn sem átti að vera mjög tryggur, yfirleitt með 1. veðrétt og að hámarki 80% lánshlutfall, greiðslumat og ég ætla ekki að telja upp allt sem hann átti að gera til að tryggja að hvorki hann né lántakendur lentu í vandræðum. Engu að síður lendir hann nú í vandræðum. Veðhlutfall lána átti að miðast við 80% yfirleitt, það fór reyndar í stuttan tíma upp í 90% og það voru fá lán sem miðuðust við brunabótamat sem var oft lægra en fasteignamatið. Sjóðurinn átti því að vera mjög tryggur að öllu leyti. En nú kemur í ljós að hann var það ekki.

Eftir að við erum nýbúin að setja í hann 33 milljarða sem fór umræðulítið eða umræðulaust í gegnum Alþingi eins og mjög margt af því sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn, allt fer með svoddan gassagangi hér í gegn að það næst varla að ræða nokkurn skapaðan hlut, er núna tveimur mánuðum seinna komið með nýjar kröfur, nýjar afskriftir. Nú er verið að tala um 48 milljarða fyrir sama tímabil, ef ég skil þetta rétt, þ.e. afskriftaþörf sjóðsins hefur hækkað um 15 milljarða, 50%, frá því við ræddum síðast um hana. Við bætum 15 milljörðum við styrkinn til sjóðsins frá ríkinu, frá skattgreiðendum, sem er umtalsvert. Ég vil minna á að milljarður er stór tala þótt kannski sé farið að slá dálítið í skilning manna á slíkum tölum. Allt er þetta borgað af skattgreiðendum og þarf að ná því inn með hækkandi tekjum, skatttekjum eða niðurskurði eða einhverju slíku. Það sýnir hve ábyrgðin er mikil á þeim aðilum sem reka sjóði eins og Íbúðalánasjóð og Byggðasjóð sem er líka í gífurlegum vandræðum. En í því tilviki er það skiljanlegt vegna þess að þar voru ekki gerðar miklar kröfur til lánveitinga og lítil skilyrði um arðsemi. Það eina sem gerð var krafa um var að framkvæmdin væri ekki á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Þetta lagafrumvarp byggir á samkomulagi sem gert var hjá fjármálastofnunum um aðstoð við lánveitendur til að laga stöðu þeirra sem voru orðnir yfirveðsettir, þ.e. að skuldirnar voru hærri en nam verðmæti eignanna. Miðað var við að lækka ætti skuldir sem væru umfram 110% af virði eignanna. Nú hefur þetta svo sem alltaf þekkst úti á landi, ég veit að herra forseta er það kunnugt. Tökum sem dæmi mann sem byggði sér nýtt einbýlishús á Siglufirði og átti á sínum tíma 5 milljónir í eigið fé og fékk 15 milljónir lánaðar til að byggja hús sem kostaði 20 milljónir. Eftir að hann flutti inn átti hann 10 milljónir í húsinu, það var ekki meira virði. Þá skuldaði hann 15 milljónir og átti 10, þ.e. eiginfjárstaðan fór úr því að vera 5 milljónir niður í mínus 5 milljónir. Enginn hafði nú miklar áhyggjur af þessu, herra forseti, í gegnum tíðina. Ég hef reyndar minnst á þetta einstaka sinnum en þetta þykir allt í lagi. En þegar þetta er komið á mölina í Reykjavík verður það allt í einu mikið vandamál.

Um allan heim hefur orðið verðlækkun á fasteignum. Þó lán séu ekki verðtryggð í þeim löndum hefur samt komið í ljós að fjöldi heimila í Danmörku, Spáni og víðar og eflaust í Grikklandi líka, eru nú með neikvæða eiginfjárstöðu. Mér er ekki kunnugt um að ríkisstjórnir þessara landa séu að reyna að laga þá stöðu enda er það óheyrilega dýrt eins og hér kemur í ljós. Þetta er óheyrilega dýrt og ekki endilega þörf á því vegna þess að fólkið ræður við greiðslurnar á lánunum. En neikvæði fylgifiskurinn við þetta er það sem fólk úti á landi hefur kynnst — það getur ekki selt. Það hefur bundist átthagafjötrum við íbúðina sína, hefur eiginlega fest rætur í gegnum íbúðina á staðnum.

Þar sem ég hef ekki enn fengið svar við því, herra forseti, væri gaman að fá svar frá framsögumanni um samkrull Íbúðalánasjóðs og ýmissa lánastofnana, svo sem eins og SPRON. Það eru svokölluð „hattalán“, ég held að þau hafi verið kölluð það. Þessir aðilar voru í samstarfi við Íbúðalánasjóð og meira að segja á heimasíðu Íbúðalánasjóðs var vísað í að þessi og hinn bankinn gæti lánað til viðbótar. Menn tóku fyrst lán hjá Íbúðalánasjóði samkvæmt reglum um 18 milljóna hámark og svo fóru þeir í SPRON eða eitthvert annað og fengu ótakmarkað lán til viðbótar. Hvað gerðist með þessi lán, herra forseti? Hvaðan komu peningarnir? Hvernig var þetta fjármagnað? Það var fjármagnað þannig að Íbúðalánasjóður keypti lánin af bönkunum vegna þess að hann sat uppi með gífurlega mikla fjármuni eftir að vextir lækkuðu hjá bönkunum. Kaupþing byrjaði með 4,15% ávöxtunarkröfu á lán árið 2004 og undirbauð í rauninni Íbúðalánasjóð. Þá sáu margir lántakendur sér leik á borði, borgarinn er yfirleitt skynsamur, og greiddu upp lánin hjá Íbúðalánasjóði með 6% vöxtum og tóku lán hjá Kaupþingi og öðrum bönkum með u.þ.b. 4,15% vöxtum. Þeir fengu heilmikið í milli, voru með sömu greiðslubyrði eftir sem áður, og gátu jafnvel keypt sér fallegan og stóran jeppa fyrir mismuninn. Þetta gerðu nokkrir, því miður. Í staðinn fyrir að lækka lánin og reyna að skulda minna héldu menn greiðslubyrðinni og keyptu sér jeppa fyrir mismuninn eða eitthvað annað, fóru í ferðalög eða hvað það nú var.

Lítið hefur verið fjallað um þetta. Hvernig stóð á því að stjórn Íbúðalánasjóðs notaði fé með ríkisábyrgð til að lána út á bifreiðar, bifreiðakaup eða alls konar kaup, ótakmarkað, ekki með þeim takmörkunum sem Íbúðalánasjóður starfar eftir, og fór í rauninni í samkeppni við Íbúðalánasjóð? Síðan keypti Íbúðalánasjóður þessi skuldabréf með ríkistryggðum pappírum. Um þetta hefur ekki verið nægilega upplýst, herra forseti. Það væri ágætt að fá upplýsingar um það. Kannski þarf ég að setja fram fyrirspurn um það.

Þetta frumvarp byggir á ákveðnu samkomulagi sem bankarnir gerðu sín á milli. Ég rak augun í ákveðna rökleysu í því. Maður hefði nú talið að að samkomulaginu hefði komið fólk með rökfræðina í sæmilegu lagi. Í því stendur:

„Hafi lántaki ekki haft neinar launatekjur á árinu 2010, t.d. vegna náms, skal miða við að lágmarkstekjur heimilis séu ekki lægri en sem svarar grunnatvinnuleysisbótum sem eru nú 149.523 kr. á mánuði að viðbættum 8.395 kr. á mánuði fyrir hvert barn á heimilinu yngra en 18 ára.“

Þetta er rökleysa, herra forseti. Hafi maðurinn ekki haft neinar tekjur skal miða við tekjur sem eru u.þ.b. 150 þús. kr. á mánuði. Ef hann hefur haft einhverjar tekjur, þó ekki sé nema 10 þús. kall á ári, skal miða við það. Þetta er náttúrlega rökleysa og dálítið undarlegt að allir þessir lögfræðingar og spekingar hafi komið með svona reglu. Þetta átti að sjálfsögðu að vera þannig að hafi menn lægri tekjur en þetta viðmið, grunnatvinnuleysisbætur, eigi að miða við það. Auk þess er talað um að lágmarkstekjur heimilis séu atvinnuleysisbætur eins manns. Það geta verið tveir í heimili og báðir geta verið í námi. Mér finnst þetta því hroðvirknislega unnið, þetta samkomulag sem gert var hérna með miklum látum.

Síðan óskuðum við eftir því hjá Íbúðalánasjóði að fá töflu yfir nokkur eðlileg lán. Þá kom fram að afskriftir eru að meðaltali 2,5 milljónir á íbúð. Um 70% af afskriftaþörfinni er vegna eigna á landsbyggðinni. Það er dálítið athyglisvert. Það segir mér að ekki er verið að leysa vanda vegna verðtryggingar. Verið er að leysa þann vanda sem ég ræddi áðan við forseta, t.d. á Siglufirði og annars staðar þar sem menn höfðu byggt t.d. einbýlishús. Sá vandi er að leysast loksins núna og kostar 21 milljarð sem allir skattgreiðendur í landinu greiða. Það finnst mér líka mjög athyglisvert. Það verður athyglisvert að sjá niðurstöður bankanna um afskriftir þeirra og bera saman hvað mikið af þeim er vegna fasteigna úti á landi og hvað mikið vegna verðtryggingar.

Mér sýnist, vegna þess að Íbúðalánasjóður lánar bara upp að 80% og miðað er við 110% af fasteignamati og verðbólgan hefur ekki verið svo mikil frá því fasteignaverð var í hámarki, að ef allt væri eðlilegt ættu ekkert voðalega margir að falla undir þessar reglur. Afskriftaþörfin ætti ekki að vera neitt voðalega dýr. En eitthvað annað er í gangi sem ég ekki skil og veldur því að veðhlutfallið í dag er allt upp í 250%. Hér er eitt lán með 295% veðhlutfall og afskriftaþörfin er 9.680 þúsund. Það er lán með athugasemd 1, þ.e. lán í frystingu, þar hefur hlaðist upp skuld. Þannig að þeir sem voru í frystingu njóta þess núna að fá meiri afskriftir.

Ég viðurkenni og fellst á að lán sem eru orðin svona og fasteignir orðnar svona mikið veðsettar, þau lán eru kannski ekki mikils virði. Þetta er kannski ágætis aðferð til að gera skuldirnar viðráðanlegri þannig að Íbúðalánasjóður þurfi ekki að afskrifa til viðbótar. Það hefði þurft að skoða miklu fleiri dæmi um hvernig þetta kemur út af öllum þessum ástæðum og skoða sérstaklega hversu mikið afskriftaþörfin og styrktarþörf Íbúðalánasjóðs vex.

Nú þurfum við hv. þingmenn væntanlega að samþykkja 15 milljarða til viðbótar í fjáraukalögum. Eiginlega ætti að fylgja frumvarpinu um fjáraukalög 15 milljarða styrkur til Íbúðalánasjóðs. Hægt er að gera mörg fjáraukalög á ári, í hverjum mánuði þess vegna. Það ætti að liggja fyrir nú þegar. En svo er sagt að jafnvel þessar tölur séu ekki endanlegar. Það eigi eftir að reyna á hvað þetta verði mikið. Kannski horfum við upp á að ekki þurfi eins mikið og menn telja og ég vona að það verði ekki meira.