139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

útflutningur hrossa.

433. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 990 frá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um það stjórnarfrumvarp sem hér um ræðir og lýtur að lögum um útflutning hrossa.

Nefndin fékk á sinn fund Kristin Hugason frá landbúnaðarráðuneytinu og leitaði umsagnar hjá Bændasamtökunum um efni málsins og sömuleiðis hjá Matvælastofnun.

Frumvarpið felur einkum í sér ferns konar breytingar, í fyrsta lagi að taka fyrir útflutning á frostmerktum hrossum, sömuleiðis að lengja þann tíma sem útflutningur fer fram með flugi. Í þriðja lagi lúta breytingar að því að taka fyrir flutning á hrossum með dýrum sem koma frá öðrum löndum og í fjórða lagi að því að hækka gjöld á útflutninginn sem renna í sérstakan stofnverndarsjóð.

Það er skemmst frá því að segja að umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart málinu, sömuleiðis þeir aðilar sem fyrir greinina eru og eftirlitið sjálft. Nefndin gerir tillögur um lítils háttar orðalagsbreytingar í nokkrum breytingartillögum sem er að finna á nefndu þskj. nr. 990, og leggur til að með þeim breytingum verði málið samþykkt sem lög frá Alþingi.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Einar Kristinn Guðfinnsson voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Atli Gíslason, Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson.