139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

fjarskipti.

136. mál
[22:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir ágæta ræðu um innihald nefndarálitsins. Það sem ég saknaði var í fyrsta lagi umræða um takmörkun á tíðnisviði sem auðlind, hversu langt menn sjá hana fyrir sér. Nú eru fjarskipti í sívaxandi mæli á hvers manns borði og í hvers manns vasa. Ég geri ráð fyrir að innan ekki mjög margra ára, 10, 15 eða 20 ára, verði það mjög verðmæt réttindi að mega senda út á ákveðinni tíðni. Var eitthvað rætt í nefndinni í tilefni þessa frumvarps um það hvort fara ætti í einhvers konar kvótakerfi eða selja þeim heimildir sem fá þessa nýtingu? Það er reyndar talað um hérna að það sé gert með fastri tölu, 30 milljónir eru að koma upp núna ef menn fá að taka upp ákveðið tíðnibil, en verðmætin gætu verið miklu meiri.

Síðan langar mig að spyrja, af því að það kom ekki fram og hefur ekki verið rætt, um persónuvernd. Í gegnum tíðnisvið og GSM-síma og allt það er hægt að vita nákvæmlega hvar viðkomandi er staddur, eins á hvaða hæð í húsi hann er. Var það rætt í nefndinni, sem sagt hvernig hægt væri að gæta þess að þeir sem reka svona símafyrirtæki noti ekki þær upplýsingar að vita hvar ég er staddur nákvæmlega núna?