139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

fjarskipti.

136. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr hvernig menn hafi hugsað það ef 100 aðilar sækja um á tilteknu tíðnisviði og uppfylla öll þau skilyrði sem eru sett samkvæmt lögunum. Þá vænti ég þess að uppboð fari fram um það, það verði ekki deilt út takmörkuðum fjölda ef 100 eða 1000 aðilar sækja um sama tíðnisvið, sömu réttindin og verið er að úthluta með þeim hætti. Það fer þá einfaldlega fram útboð á því. (PHB: Nei, …)

Hv. þingmaður nefndi áðan hvað gerist á 10 árum. Það er margt og það kemur m.a. fram í þeim fjölda breytinga sem verða á fjarskiptalögum, stundum margar á ári sem eru til merkis um þá miklu þróun sem hefur orðið á þessu sviði, sérstaklega á undanförnum árum. Það þarf að fylgja þeim eftir, langoftast eru tíðar lagabreytingar á fjarskiptalögum skýrðar með þeim breytingum sem verða á þessu sviði, við þurfum bæði að fylgja eftir aukinni og meiri tækni og þar að auki aukinni notkun á mismunandi tíðnisviðum sem eru sömuleiðis breytilegar.

Það var ekki sérstaklega rætt svo ég muni um það hvernig fara eigi með persónuupplýsingar sem svo sannarlega er hægt að afla með þeim hætti sem hv. þingmaður nefndi að öðru leyti en því að persónuvernd og persónulög ná auðvitað yfir meðferð þessara mála eins og önnur slík mál. Það var ekki sérstaklega rætt hvað þetta varðar hvernig fara eigi með þær upplýsingar, enda er hér fyrst og fremst verið að fjalla um breytingar á lögum um (Forseti hringir.) fjarskipti og úthlutun tíðna en ekki með beinum hætti hvernig fara eigi með umframupplýsingar eða að þær eigi að lúta öðrum lögum en (Forseti hringir.)