139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[22:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Okkur greinir svo sem ekki mikið á um hversu mikilvægt það er að breyta vinnubrögðunum og vanda þau því að við höfum séð sömu athugasemdirnar ár eftir ár hvað það varðar í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Nú er mikill vilji í hv. fjárlaganefnd til að breyta vinnubrögðunum til að geta fylgt eftir framkvæmd fjárlaga og bæta gæði fjárlaga, ef ég má orða það með þeim hætti.

Hæstv. ráðherra sagði að mjög mikilvægt væri að sýna hvernig færa á heimildir, hvernig það virkar, bæði þar sem þær eru vannýttar og eins hvernig menn geta nýtt eða fært hugsanlegt tap á milli ára með því að ganga á þær heimildir sem þeir eiga inni. Það er mjög mikilvægt að sett verði ákvæði um hvernig það er gert.

Það er líka mjög mikilvægt núna við þær aðstæður sem nú eru í þessum erfiða niðurskurði og erfiðu stöðu ríkissjóðs að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að fjárlögin virki. Það virðist hafa verið þannig í mörg ár að þegar menn áætluðu tekjur ríkissjóðs — við skulum segja t.d. 400 milljarða og að útgjöldin hafi verið 370 milljarðar með 30 milljarða afgang — varð niðurstaðan sú að tekjur ríkissjóðs jukust úr 400 milljörðum í 430, eins og í uppsveiflunni, en útgjöldin jukust líka úr 370 milljörðum í 400 milljarða. Það var eitthvert agaleysi í þeim málum og þá var sagt: Niðurstaðan er þó alla vega 30 milljarðar eins og reiknað var með, þannig að það var ekki nógu mikið aðhald á útgjaldaþættinum í fjárlögunum. Því er gríðarlega mikilvægt að breyta. Ég vænti mikils og bind miklar vonir við þá vinnu sem unnin er í fjárlaganefnd til þess að breyta svona vinnubrögðum, því að það er sameiginlegt markmið okkar allra að hafa gæði fjárlaganna sem mest.