139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 16/2009 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

132. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn um neytendavernd. Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og m.a. leitað álits allsherjarnefndar á tillögunni og fylgir álit allsherjarnefndar með áliti utanríkismálanefndar.

Meginmarkmið þessarar tilskipunar er frekari sameining markaða og aukin neytendavernd á sviði neytendalána. Réttarstaða neytenda við gerð lánasamninga mun batna til muna frá því sem nú er auk þess sem gerðar verða auknar kröfur til vandaðra vinnubragða lánastofnana. Má þar nefna kröfu um aukna upplýsingagjöf lánastofnana og skyldu til að meta gjaldþol lántaka fyrir samningsgerð, að þak verður sett á uppgreiðslukostnað lána og að neytendur munu hafa 14 daga frest til að falla frá samningi.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og er fyrirhugað að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum, á haustþingi og mun það að líkindum koma til meðferðar í allsherjarnefnd.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið skrifa Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.