139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 114/2008 um breyt. á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn.

134. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn um fjármálaþjónustu og XIX. viðauka við EES-samninginn um neytendavernd. Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og m.a. fengið til sín gesti frá utanríkisráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Markmið tilskipunar 2007/64/EB eru að skapa heildstætt, samræmt og nútímalegt ESB-regluverk um rafræna greiðslumiðlun og að efla réttarstöðu neytenda er varðar greiðsluþjónustu. Helstu breytingarnar verða annars vegar tilkoma svokallaðra greiðslustofnana og hins vegar að einungis bönkum og sparisjóðum verður heimilt að veita fyrrnefnda greiðsluþjónustu. Gilda ákvæði tilskipunarinnar m.a. um veitingu greiðsluþjónustu, þar með talið um réttindi og skyldur í tengslum við skilyrði og notkun ólíkra greiðslukerfa. Ætla má að samkeppni aukist um greiðsluþjónustu hér á landi með auknu aðgengi að greiðslukerfum og fjölgun þátttakenda á markaði þegar greiðslustofnanir verða bæði nýir þátttakendur í greiðslukerfum og samkeppnisaðilar við banka er kemur að veitingu greiðsluþjónustu.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til nýrra heildarlaga um greiðsluþjónustu fjalla um það efni. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á vorþingi. Eftir framlagningu mun það að líkindum koma til meðferðar í viðskiptanefnd.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.