139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

17. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið m.a. umsagnir frá iðnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli utanríkisráðherra að hefja stefnumótun um gerð samninga við önnur ríki um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Stefnt verði að því að fjölga gerð slíkra samninga til þess að efla traust og skapa hagfelld skilyrði fyrir beina erlenda fjárfestingu hér á landi sem og fjárfestingu íslenskra aðila erlendis. Gerð slíkra samninga stuðlar jafnframt að aukinni milliríkjaverslun og veitir fjárfestum aukna vernd. Sérstaklega verði að því stefnt að gera samninga af þessu tagi við þau ríki þar sem Íslendingar hafa mestu viðskiptahagsmunina.

Nefndin tekur undir umsagnir sem henni bárust sem allar voru jákvæðar og telur brýnt að efla traust og skapa hagfelld skilyrði fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi sem og fjárfestingar Íslendinga erlendis. Nefndin telur þó ljóst að gerð gagnkvæmra samninga um vernd fjárfestinga sé vandkvæðum bundin við núverandi aðstæður eins og bent er á í umsögn utanríkisráðuneytis um málið. Í samningsfyrirmynd OECD við gerð fjárfestingarsamninga, sem íslensk stjórnvöld styðjast við, er kveðið á um að samningsaðilar tryggi að greiðslur sem tengjast fjárfestingum og ágóða skuli fást yfirfærðar. Með þeim takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum sem í gildi eru hér á landi eru möguleikar á því að framfylgja þessum ákvæðum fjárfestingarsamninga verulega skertir. Í því ljósi álítur nefndin að gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga um þessar mundir sé verulegum takmörkunum háð, en telur engu að síður tímabært að hefja stefnumótun til framtíðar á þessu sviði svo hægt sé að leggja í slíka samningagerð þegar aðstæður breytast.

Nefndin leggur til að þessi tillaga sem flutt er af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum verði samþykkt óbreytt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Valgerður Bjarnadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Birgitta Jónsdóttir og Álfheiður Ingadóttir.