139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú standa yfir viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamningagerð og í morgun bárust fréttir af því að aðilarnir hefðu farið á fund ríkisstjórnarinnar til að gera grein fyrir helstu áherslum sínum.

Það var þannig líka árið 2009 þegar gerður var stöðugleikasáttmáli að gengið var upp í Stjórnarráð og komist að samkomulagi við ríkisstjórnina um að leggja áherslu á tilteknar aðgerðir til að skapa hagvöxt og laða fram fjárfestingu í atvinnulífinu. Við sjáum það í dag miðað við þann hagvöxt sem við búum við í augnablikinu sem virðist vera enginn og fjárfestingin í algjöru lágmarki að það virðist vanta u.þ.b. 150 milljarða á heildarfjárfestingu í landinu borið saman við það sem að var stefnt árið 2009.

Nú eru þessir aðilar að hefja að nýju kjarasamningagerð þar sem horft er til þriggja ára. Augljóst er að grunnforsenda þess að hægt sé að hækka laun í landinu er sú að hagvöxtur fari af stað, að okkur auðnist að fá fram atvinnuvegafjárfestingu, okkur takist að laða hingað heim frá erlendum aðilum nýja fjárfestingu og eyða óvissu sem ríkt hefur um grunnatvinnugreinarnar. Ég tel líka að það sé bráðnauðsynlegt að draga úr þeirri skattaherferð sem ríkisstjórnin hefur verið í gegn bæði heimilum og atvinnulífi.

Mig langar að bera það upp við hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það skorti algerlega á að ríkisstjórnin hafi gripið til nauðsynlegra (Forseti hringir.) aðgerða til að laða fram þá fjárfestingu sem stefnt var að þegar á árinu 2009 og ekkert bólar enn á.