139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fréttirnar frá Hagstofunni á dögunum af samdrætti í efnahagskerfinu á síðasta ári þar sem sérstaklega sló í bakseglin í árslok eru hreinasta hörmung og enn ein staðfesting á því sem blasir í rauninni við öllum sem vilja sjá, að ríkisstjórnin er ekki að ná nokkrum einasta árangri. Það munar flestu aftur á bak þrátt fyrir að mjög sé geipað um annað.

Hvað þýða þessar tölur um samdráttinn sem Hagstofan birti okkur á dögunum? Ég skal taka nokkur dæmi. Í fyrsta lagi: Atvinnuleysi 14 þúsund manna er ekki á undanhaldi. Í öðru lagi: Langtímaatvinnuleysi er orðinn hinn kaldi veruleiki. Þeim mun fjölga á næstunni sem munu búa við langtímaatvinnuleysi. Núna er meira en helmingur þeirra sem eru atvinnulausir búinn að vera atvinnulaus í meira en hálft ár. Þriðjungur þeirra sem eru atvinnulausir hefur verið atvinnulaus í meira en eitt ár, þ.e. nærri 5 þúsund manns, og tæplega 2 þúsund manns hafa verið atvinnulausir í meira en tvö ár. Þúsundir manna hafa verið að flýja land og þeir eru ekki á heimleið, því miður, það mun bara fjölga í þeim hópi.

Við þurfum að skapa 2–3 þúsund störf á ári bara til að taka á móti nýjum árgöngum sem koma út úr skólum og ætla að reyna að hasla sér völl í atvinnulífinu. Það verður ekki raunin. Þetta er ekki glæsileg framtíðarsýn fyrir ungt fólk. Lífskjörin hafa verið að versna í kjölfar hrunsins og miðað við þessar tölur erum við föst í þessu fari.

Ríkissjóður og sveitarfélögin verða áfram í vanda vegna þess að umsvifin eru ekki að aukast. Tekjur hins opinbera munu minnka og útgjöldin verða óumflýjanlega meiri vegna félagslegra aðgerða. Þá munu verða að áhrínsorðum hin fleygu orð hæstv. fjármálaráðherra „You ain´t seen nothing yet“. (Gripið fram í.)

Þetta er ókræsileg mynd en þetta er bara lýsing á því sem tölur Hagstofunnar um hagvöxtinn segja okkur. Ríkisstjórnin hefur engin ráð og dýpkar bara kreppuna með stefnu sinni og aðgerðaleysi. Þetta er ekki bölsýni heldur lýsing á ástandinu. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin þarf að láta af blekkingaleik sínum því að eitt er að reyna að blekkja sjálfan sig en það er óþverrabragð að reyna að blekkja þjóðina líka.