139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kominn tími til að almenningur allur, fyrirtækin og stjórnvöld fari að átta sig á hversu alvarleg staða er komin upp í efnahagsmálum þjóðarinnar og hversu slæmar framtíðarhorfurnar eru verði ekkert að gert og gripið til drastískra aðgerða.

Við urðum vitni að því hér í umræðum í gær að hæstv. forsætisráðherra er greinilega algjörlega úti á túni þegar kemur að stöðu hagkerfisins og efnahagslífsins. Hún notaði tækifærið til þess að skamma stjórnarandstöðuna fyrir að benda á hið augljósa, að hagvöxtur er í núlli, fjárfestingar í frosti og það vantar 150 milljarða í fjárfestingar sem taldar voru nauðsynlegar á árinu 2009.

Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar um að ekkert verkefni er eins brýnt í íslenskum stjórnmálum og að ná fram fjárfestingu, efla hagvöxt og koma atvinnulífinu í gang. Til að það sé hægt þarf að skipta um ríkisstjórn. Hv. þingmaður talar um að það þurfi að eyða óvissu. Það er alveg rétt að það þarf að gera það en þessi ríkisstjórn eykur óvissuna.

Hér situr hæstv. umhverfisráðherra sem berst með kjafti og klóm gegn atvinnuuppbyggingu í landinu, (Gripið fram í.) hæstv. sjávarútvegsráðherra sem reynir að kollvarpa stærstu og mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og hæstv. forsætisráðherra sem talar um að fara í upptöku á eignum fyrirtækja ef henni líka ekki þær fjárfestingar sem þau fara í.

Það er líka alveg rétt hjá hv. þingmanni að afnema þarf gjaldeyrishöftin og koma fram með einhverja stefnu um það, það átti að gera árið 2009 en hefur ekki verið gert.

Það verða allir að vera reiðubúnir til að ræða alla möguleika á því að efla hérna fjárfestingu (Forseti hringir.) en það verður ríkisstjórnin líka að vera. Við sjálfstæðismenn höfum verið reiðubúnir til að skoða alla möguleika en það hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki viljað gera og það veit hv. þm. Helgi Hjörvar alveg jafn vel og ég.