139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að á Íslandi eru fjölmörg tækifæri, tækifæri til að byggja upp atvinnu, tækifæri til að horfa til framtíðar, en því miður erum við ekki að nýta þau tækifæri.

Þannig er, frú forseti, að í ræðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan kom kannski fram kjarninn í því sem við erum að glíma við. Við glímum við atvinnuleysi og við glímum við það að fyrirtækjunum og heimilunum er ekki hjálpað til þess að geta farið að fjárfesta. Fyrirtækin þurfa að geta fjárfest og þurfa að geta fjölgað starfsfólki og það þarf að bregðast við þeim vanda sem enn er hjá langflestum heimilum á Íslandi sem hefur ekki verið hjálpað hingað til.

Þessu tengt, frú forseti, þá kom í hádeginu enn ein merkileg yfirlýsingin og snilldarfréttin frá seðlabankastjóra Íslands. Það er með ólíkindum hvað sá ágæti maður ætlar að leggjast á sveif með þeim sem vilja tala niður Ísland, það er hreinlega með ólíkindum, og ég bið þingheim að taka eftir orðum mínum. Ég er margbúinn að lýsa því yfir að ég hef hvatt forsætisráðherra til þess að víkja seðlabankastjóra eða leggja til að hann víki, því að ég tel hann vera að vinna gegn hagsmunum landsins. (Gripið fram í.)

Nú kemur háttvirtur seðlabankastjóri og segir að ef sagt verður nei við Icesave-samningnum muni gjaldeyrishöftin verða lengri og lengri og lengri. Hins vegar hafa hér þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og álitsgjafar úti í bæ sagt að verði Icesave samþykkt muni gjaldeyrishöftin lengjast, þá muni þau verða viðloðandi nema til komi breytt efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar. Hvorugt er að gerast.

Frú forseti. Við erum að sjá fram á það að gjaldeyrishöftin eru komin til að vera (Forseti hringir.) samkvæmt orðum seðlabankastjóra.