139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það kom fram í gær í umræðu um atvinnumál að hæstv. forsætisráðherra lýsti efnahagsástandinu í landinu og sagði að okkur miðaði vel áfram um leið og hún lagði fram tölur um hreina stöðnun í efnahagslífinu, þar sem hún lýsti í raun og veru efnahagskerfi sem er í frosti en sagði engu að síður að okkur miðaði vel áfram og þeir sem hefðu aðra skoðun væru einungis svartsýnir bölsýnismenn.

Mér þótti því betra að heyra hljóðið núna í hv. þm. Helga Hjörvar, formanni efnahags- og skattanefndar, en hann virðist öllu næmari fyrir ástandinu í þjóðfélaginu en hæstv. forsætisráðherra sem er frammámaður framkvæmdarvaldsins í landinu og hefur auðvitað með það að gera að leggja fram stefnu um að koma okkur út úr þessum vandræðum.

Það er því miður svo að hagvöxtur í landinu er enginn og það er að rætast sem svartsýnustu menn spáðu, að ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í því að skapa eðlilega umgjörð fyrir fyrirtækin í landinu, stór og smá. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að auðvitað skiptir öllu máli að hafa heilbrigða umgjörð fyrir atvinnulífið, heilbrigt skattumhverfi, en ríkisstjórnin er því miður að gera þveröfugt.

Svo kom einnig fram í máli hæstv. forsætisráðherra í gær í lok umræðunnar að hún telur að eina leiðin til að létta álögur á fyrirtækjum í formi tryggingagjalds sé þá, eða nefndi það sem dæmi, að leggja svokallaða ofurskatta á svokölluð ofurlaun. Þar liggur stefna ríkisstjórnarinnar eða frammámanns hennar í skattamálum.

Ég hvet þingmenn stjórnarmeirihlutans sem þó hafa einhverja næmni fyrir því hvernig efnahagslífið í landinu stendur að beita sér fyrir því að hér verði breyting á stefnu. Það er alveg ljóst að sú mesta ógn, efnahagsleg ógn sem nú steðjar að íslenskri þjóð er efnahagsstefna (Forseti hringir.) ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.