139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:26]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Menn hafa verið að ræða hér atvinnumál og formaður Sjálfstæðisflokksins reið á vaðið sem fyrstur á mælendaskrá. Menn hafa hátt um atvinnumál og heimta erlenda fjárfestingu.

Ég vil leyfa mér að benda á að ég sat sem áheyrnarfulltrúi á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun þar sem var verið að ræða frumvarp Hreyfingarinnar um löndun afla á innlenda fiskmarkaði í stað þess að flytja hann út óunninn í gámum. Það var sjónarmið okkar á sínum tíma að þetta mundi skapa 400–600 störf innan lands. Samtök fiskútflytjenda héldu því fram í morgun að þetta mundi skapa a.m.k. 1.200 störf fyrir utan afleiddu störfin. Ef við förum milliveginn í þessu máli erum við að tala um kannski 800 störf. Þetta er meira en starfsfólk í einu heilu álveri. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Þetta frumvarp hefur legið i sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd síðan í október, í fimm mánuði. Það hefur enginn hreyft við því. Ég fékk það tekið á dagskrá eftir mikla eftirgangsmuni og mér heyrðist á formanni nefndarinnar og varaformanni að það væri kannski gert meira af greiðasemi við mig og Hreyfinguna en af áhuga á málinu. Þetta er áhuginn sem menn hafa á atvinnumálum. Þeir hafa miklu meiri áhuga á því að það heyrist hátt í þeim um erlenda fjárfestingu en að menn snúi sér að því sem kunna að gera á Íslandi og er mjög nærtækt. Hægt er að skapa þessi störf á innan við þremur mánuðum með mjög litlum tilkostnaði en það hefur enginn áhuga á því af því að það hljómar ekki nægilega vel. Er það kannski málið?

Hvers vegna snúa menn sér ekki að því að landa íslenskum fiski á íslenska uppboðsmarkaði og vinna fiskinn á Íslandi? Við erum fyllilega samkeppnisfær við öll nágrannalöndin í launum. Þetta væri hægt að gera á örfáum mánuðum. Ég skora á þá sem (Forseti hringir.) sitja hér og styðja þessa ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkana að koma þessu máli í gegn hið fyrsta.