139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

82. mál
[14:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég hafði reyndar beðið um orðið um atkvæðagreiðsluna en get alveg eins nýtt þessa mínútu undir þeim lið að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ég styð þá tillögu sem hér liggur fyrir en ég vil bara árétta það að ég tel að vinnubrögð varðandi EES-málin hafi verið bætt með sérstökum reglum um þinglega meðferð EES-mála. Það hefur meðal annars verið gert með því að vísa tillögum til viðkomandi fagnefnda til umfjöllunar. Það hefur verið gert í mjög mörgum tilvikum af þeim málum sem hér eru til umfjöllunar. Sumum finnst reyndar nóg um, hef ég heyrt, í einstökum fagnefndum, að þurfa að fá þessi mál til sín en ég held að það sé einmitt mikilvægt, og það var það sem eftir var kallað, að það yrði gert, og það er til marks um betri vinnubrögð.

Ég er sammála því viðhorfi sem meðal annars kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur að við getum haft áhrif á fyrri stigum. Við þurfum ekki endilega að fara inn í Evrópusambandið til að hafa áhrif á gerðir EES-samningsins. Við getum gert það (Forseti hringir.) og síðan geta menn tekið sérstaka og sjálfstæða afstöðu til hinnar spurningarinnar.