139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en hér er um að ræða mál sem er mjög þarft en getur hins vegar, eins og mörg mál í kjölfar hruns, skaðað mannréttindi. Ég er reyndar með breytingartillögu sem á að milda þau áhrif sem þetta getur haft á einstaklinga vegna þess að kyrrsetning eigna er mjög alvarlegt mál hjá einstaklingum, sérstaklega ef hún varir lengi. Það eru engin takmörk fyrir því hvað hún getur varað lengi samkvæmt þessu frumvarpi og sömuleiðis er treyst hérna á það að þeir sem fara með framkvæmdarvaldið, opinberir starfsmenn, séu góðir og gegnir og fari ekki út fyrir sín mörk. En löggjafinn má ekki treysta á slíkt. Hann má ekki gefa slík völd til embættismanna.

Þess vegna mun ég ekki geta stutt þetta frumvarp nema þessar breytingartillögur mínar verði samþykktar. Ef þær verða samþykktar get ég stutt það en að öðru leyti get ég ekki stutt það og ég legg til við minn þingflokk, sem og aðra þingmenn, að greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi óbreyttu.