139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Við hefjum nú 2. umr. um mál sem lengi hefur verið í vonum á þinginu um skipulag og stjórn vatnamála. Það á sér grunn í evrópskri vatnatilskipun sem áður hefur verið rædd á þinginu og kallað eftir henni reyndar frá árunum a.m.k. 2005 og 2006, í umræðu um vatnalögin, frægri umræðu sem þeir muna vel eftir sem tóku þátt í henni eða hlustuðu á hana. Nú erum við komin í skömm með þetta mál gagnvart félögum okkar á Efnahagssvæði Evrópu og erum í raun og veru á síðasta snúningi með þessa afgreiðslu hér, þessa löggjöf, til að klára hana með sæmilegum hætti.

Umhverfisnefnd hefur fjallað nokkuð ítarlega um þetta mál og gert töluverðar breytingar á frumvarpinu með ýmsum hætti og eins og til hlýðir fylgir þeim breytingartillögum nokkuð ítarlegt nefndarálit sem er þannig smíðað að bæði þingmenn nú og svo lögskýringarmenn síðar eiga að geta ratað nokkuð vel um lögin þegar að því kemur sem vonandi er. Ég ætla ekki að þylja nefndarálitið allt hér heldur taka helstu þætti í því, þrjá eða fjóra, og vera síðan vakandi í umræðunni og svara spurningum sem upp koma ef einhverjar slíkar vakna.

Fyrst er um frumvarpið að segja að það kveður á um verndun vatns. Því er ætlað að hindra að vatnsgæði rýrni á landinu og að því er stefnt að bæta ástand vistkerfa í vötnum og einnig þurrlendis- og votlendsvistkerfa sem tengjast vatnavistkerfum að vatnsbúskap. Það er ekki sjálfstæð stefna að vernda þau með þessu frumvarpi heldur koma þau inn í frumvarpið vegna þess að mörg þeirra, votlendisvistkerfi og þurrlendisvistkerfi, tengjast vatnavistkerfunum vegna þess að vatnið er sameiginlegt að heild eða að hluta. Frumvarpinu er ætlað að tryggja að vatn njóti heildstæðrar verndar og það endurspeglar sem sé lagabálka í öðrum Evrópuríkjum af sama tagi. Þessu frumvarpi er líka ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns með því að vernda vatnsauðlindina til langs tíma.

Í vinnu nefndarinnar fór kannski mestur tími og umhugsun í það að huga að stjórnsýslu vatnamála og í umsögnum var þeirri athugasemd komið á framfæri að stjórnsýslan eins og hún lá fyrir í frumvarpinu væri flókin og þung í vöfum og margir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar, a.m.k. fyrst í stað þegar við fórum að skoða frumvarpið. Nefndin bendir í áliti sínu á að rauði þráðurinn í tilskipuninni sem þetta frumvarp byggist að meginhluta á um stefnu í vatnamálum er samvinna. Mikil áhersla er lögð á að allir sem koma að þessu máli, að vatni, notum þess og vernd, séu líka með í vinnu við þær áætlanir sem smíðaðar eru á grunni þessara laga allt frá byrjun og að samstaða eflist sem verða má við þetta verk.

Skilningur nefndarinnar er sá að það sé stefnan að reyna að ná sem allra mestri sátt um vatnaáætlun og nefndin leggur sérstaka áherslu á að sveitarfélögin hafi sem mest áhrif á þetta starf vegna þess að það eru þau sem einkum þurfa að vinna eftir þeim áætlunum sem kveðið er á um í frumvarpinu og það eru þau og íbúar þeirra sem eiga mest undir því að vel takist til. Það er að vissu leyti þannig um búið að þetta á að geta tekist nokkuð vel því að sveitarfélögin hafa aðkomu að þessum ferli frá upphafi hans og alveg til enda, í raun og veru nánast að því að áætlanir koma á borð ráðherrans sem tekur hins vegar í samræmi við stjórnskipun okkar og stjórnsýsluvenjur lokaákvörðun um það hvernig þær líta út.

Nefndin fjallaði þess vegna töluvert um hlutverk og skipun vatnaráðs, sem í frumvarpinu var tiltekið en er ekki skylt að hafa samkvæmt tilskipuninni, og eins og þetta var var vatnaráðið nánast eins og lægra sett stjórnvald sem heyrði undir ráðherra en hafði sjálfstætt líf. Að mati nefndarinnar gengur þessi skilningur ekki upp. Vatnaráð á að gera tillögur til ráðherra en í lokin er það alltaf ráðherra sem tekur ákvörðun og ber hina pólitísku ábyrgð og það er ekki heppilegt að til sé einhver sú stjórnsýslustofnun sem taki hana með einhverjum hætti af ráðherranum.

Það er skilningur nefndarinnar að vatnaráð taki við tillögum Umhverfisstofnunar og segi álit sitt á þeim og sé ráðherra með þeim hætti til ráðgjafar við endanlega ákvörðun. Til álita kom í nefndinni, og það var íhugað alvarlega, að leggja til að ákvæðið um vatnaráð yrði fellt brott til að einfalda stjórnsýsluna. Við nánari skoðun var það niðurstaða okkar að þetta ráð væri heppilegt til að tryggja samráð og dreifingu upplýsinga á síðustu stigum áætlunargerðar, ekki síst þar sem þar koma saman fulltrúar stjórnsýslustiganna beggja, fulltrúar úr umhverfisráðuneytinu, fulltrúi umhverfisráðherra að sjálfsögðu en líka fulltrúar annarra ráðherra, og ekki síst fulltrúar á sveitarstjórnarstiginu. Þetta er í samræmi við áherslur tilskipunarinnar og þá samhentu stjórnsýslu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu en það orð kemur inn í þetta plagg sem ég er með fyrir framan mig frá Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðingi, sem var meðal þeirra sem við kölluðum á fund okkar og þökkum sérstaklega fyrir því að hún er ekki embættismaður eða fulltrúi hagsmunaaðila, sem skýrði þetta vel fyrir okkur.

Til að skýra stöðu vatnaráðs leggur nefndin til breytingar á þann veg að það falli á brott ákvæði um að afl atkvæða ráði úrslitum mála á fundum vatnaráðs og þar með er ráðið ekki stjórnvald sem tekur neins konar ákvarðanir, enda eru engar kæruleiðir í kringum þetta ráð og það er ekkert eiginlegt bakland nema þeir samráðsaðilar sem þarna koma að. Við leggjum til breytingar á orðalagi um hlutverk ráðsins til áréttingar á því að ráðið er ráðherra til ráðgjafar og hefur auðvitað mikilvæga stöðu sem slíkt.

Til að koma til móts við athugasemdir, m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, um kostnað sem leiði af þessari nýju skipan leggur nefndin til að vatnaráði verði auk þess hlutverks sem talið var í frumvarpinu einnig falið það að fylgjast með hvernig markmiðum laganna er náð og meta kostnað sem af þeim hlýst fyrir ríki, sveitarfélög og atvinnufyrirtæki og allan almenning miðað við þann ábata sem verkið skilar, því að einhver hlýtur hann að vera og til þess er þetta sett á fót að það skapist ábati bæði efnislegur og annars konar. Í því skyni á ráðið að skila reglulega skýrslu til ráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ég ætla aðeins að fjalla líka um hlutverk rannsóknastofnana í 10. gr. frumvarpsins. Þar gerði nefndin þær breytingar að fela Náttúrufræðistofnun heldur fyllra hlutverk en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og það gerum við á grunni laganna um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur en fyrst og fremst til að ekki skorti þegar kemur til framkvæmdarinnar þær upplýsingar sem á þarf að halda við mat og rekstur þessa ferils sem hér er um að ræða. Það er auðvitað spurning hvort þessi grein um hlutverk ríkisstofnana við framkvæmd laganna á heima í lögum en úr því að hún er þar og nefndin tók hana ekki burt eða leggur ekki til að hún verði tekin burt hlýtur umfjöllunin um Náttúrufræðistofnun að vera við hæfi þeirra laga og þess gagns sem um þá stofnun gilda og þess gagns sem sú stofnun getur gert í þessu samhengi.

Enn vil ég fjalla um kostnað við framkvæmd frumvarpsins. Um það var að sjálfsögðu töluvert rætt og frumvarpið hafði breyst frá síðustu gerð að kostnaðinum enda ekki furðulegt miðað við efnahagsástandið nú. Í 1. umr. um frumvarpið var líka rætt töluvert um kostnað og í mörgum umsagnanna komu fram athugasemdir um kostnað. Menn eru hræddir við að þurfa að láta út peninga og það er auðvitað bæði mannlegt og algerlega eðlilegt, enda eru þeir sem hér tala yfirleitt ekki að tala um sína eigin peninga heldur peninga sem þeim er trúað fyrir. Umsagnaraðilar lögðu yfirleitt áherslu á það að kostnaði yrði haldið í lágmarki og stjórnsýslan höfð eins einföld og kostur er.

Að mati ýmissa kallar tilskipunin á umtalsvert aukna stjórnsýslu og aukinn kostnað. Það sýnist nefndinni vera rétt, einkum í byrjun meðan unnið er að gerð áætlananna sem frumvarpinu fylgja. Réttaráhrif aðaláætlunarinnar sem er vatnaáætlun verða einkum þau að sveitarfélög þurfa að samræma skipulagsáætlanir sínar áætluninni og það eykur auðvitað einnig kostnað að einhverju leyti. Meðal annars þess vegna leggur nefndin til að frestur sveitarfélaga til þessa verði sex ár en ekki fjögur eins og segir í frumvarpinu.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis kemur þó fram að fyrst um sinn megi að einhverju leyti hamla kostnaði með því að breyta forgangsröð verkefna og samhæfa og endurskipuleggja vinnu þeirra sem að framkvæmdinni koma í samræmi við hlutverk viðkomandi stofnana, eins og segir í nefndarálitinu. Nefndin hefur verið upplýst um það að á næsta þingi, kannski ekki næsta haust eins og stendur í þessum bjartsýna texta en a.m.k. á næsta þingi, sé von á frumvarpi um framtíðarskipan fjármögnunar vegna framkvæmdar þessara laga. Þar verður meginreglan svokölluð nytjaregla, að þeir sem nýta vatnið eigi að borga fyrir umsýslu og verndaraðgerðir þannig að það eru notendur, skulum við kalla það, sem að lokum borga en ekki almennir skattborgarar úr ríkissjóði eða sveitarsjóðum.

Umhverfisstofnun er ásamt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að vinna að hagfræðilegri greiningu á því hverjir þessir notendur eru, hverjir það eru sem nýta vatnsauðlindina á okkar landi. Þeirri greiningu á að vera lokið í vor og hún getur þá myndað grunn undir það þingmál sem við búumst við á næsta löggjafarþingi. Þess má vænta, segir nefndin í nefndaráliti sínu, að kostnaðurinn leggist að lokum á breiðan hóp notenda og nefndin bendir líka á að samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum þurfa sveitarfélög að halda vel utan um sorphirðu og skolphreinsun með umtalsverðum kostnaði sem ekki tengist þessu frumvarpi eða vatnatilskipuninni og mundi líklega vaxa og aukast þótt þetta frumvarp yrði ekki að lögum og sennilega verða meiri en ella ef þær aðgerðir og sú vernd verður ekki sem gert er ráð fyrir að þessi lög kalli á. Að teknu tilliti til alls þessa telur nefndin að kostnaðurinn við innleiðingu vatnatilskipunarinnar með þessu frumvarpi verði ekki eins mikill og ýmsir umsagnaraðilar óttast en telur ástæðu til að fylgjast vel með þeim þætti málsins og hefur lagt fram breytingartillögur við 6. gr. sem ég rakti áðan m.a. til þess arna.

Að auki leggur nefndin til ýmsar efnisbreytingar sem ekki er fjallað um hér, minni háttar, og þar að auki ýmsar lagatæknilegar breytingar og málfarsbreytingar sem þörf er á við spánnýja löggjöf. Það er verkefni og hlutskipti umhverfisnefndar á okkar tímum kannski, a.m.k. á þessum vetri, að standa í fararbroddi við löggjafarstörf á umhverfissviði í umhverfisrétti sem enn er vanþroskaður á Íslandi. Það þýðir að við erum með í höndunum ýmist stórbreytingar á núgildandi lögum eða löggjöf sem að mestu leyti er ný og verður þess vegna tafsöm og erfið og á rót í erlendum tungum sem stundum hefur ekki gengið nógu vel að koma yfir á íslensku og þarf auðvitað nokkurn tíma til að gera það svo vel sé. En það er mikilvægt að það sé þannig til að bæði allur almenningur og sérstakir áhugamenn og þeir sem starfa þurfa við þetta geti talað um þessi efni á venjulegri íslensku og skiljanlegri. Breytingar okkar á þessu frumvarpi eru m.a. í samræmi við þá málfarsstefnu sem gerð er tillaga um í frumvarpi frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu íslenskrar tungu sem mælt var fyrir um daginn en þar segir að mál það sem notað er í starfsemi ríkis og sveitarfélaga skuli vera vandað, einfalt og skýrt.

Nefndin hefur ákveðið að taka málið inn milli 2. og 3. umr. Þar er kannski einkum um að ræða spurningu um refsingarákvæði sem þvældist nokkuð fyrir okkur í vinnunni milli 1. og 2. umr. og við settum ekki inn í frumvarpið en þurfum að ræða betur. Þar að auki má búast við að nefndin taki mark á leiðréttingartillögum sem m.a. koma frá frumvarpsflytjanda eða starfsmönnum hans og koma þeim til skila í 3. umr. Það er svo að ekki fellur eik við fyrsta högg við aðstæður eins og við vinnum hér við. Þess má geta að sá fundur hefur verið boðaður á morgun í bítið í því trausti að þingið klári þetta mál í dag eða a.m.k. komist það langt að nefndin geti af viti fjallað um málið eftir 2. umr. og undirbúið breytingartillögur við 3. umr. ef ástæða þykir til.

Undir skjalið rita nefndarmenn allir. Það eru níu menn í nefndinni, Mörður Árnason, Ólína Þorvarðardóttir, Birgir Ármannsson, Álfheiður Ingadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir. Ég er sjálfur sem formaður mjög ánægður með að þessi samstaða skuli hafa náðst. Fjórir nefndarmanna skrifa vissulega undir nefndarálitið með fyrirvara, sem þeir gera væntanlega grein fyrir ef þeim þykir ástæða til, en í heildina hefur nefndin verið samferða í þessu máli og verður það vonandi áfram.