139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:45]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum afar mikilvægt frumvarp um stjórn vatnamála sem er líklega mikilvægasta náttúruauðlind þjóðarinnar og öfundarefni úti um víða veröld hve vel við Íslendingar stöndum þegar kemur að þessari auðlind. Þó að vissulega hafi nýting vatnsafls verið vettvangur átaka milli þeirra sem vilja vernda náttúruna og hinna sem vilja nýta vatnið til atvinnusköpunar verða slík átök ekki viðfangsefni þessa frumvarps. Hér svífur friðurinn yfir vötnum. En vissulega er rétt að hafa í huga að stundum getur friður dagsins í dag breyst í ófrið á morgun.

Þegar ég fór yfir þetta frumvarp í fyrstu spurði ég mig eftir að hafa skoðað þá umfangsmiklu stjórnsýslu sem þar er lagt upp með hvert væri vandamálið sem við værum að leysa með þessari flóknu og um margt þunglamalegu stjórnsýslu. Ég var þeirrar skoðunar til að byrja með að eitt af því sem mætti fara undir niðurskurðarhnífinn í meðförum nefndarinnar væri umrætt vatnaráð en sá við frekari umhugsun að það gegndi ákveðnu lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu sem þarna á sér stað, sérstaklega hvað varðar jafnvægið sem lagt er upp með milli stjórnsýslustiganna, ríkisvaldsins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Ég tel að kjarninn í þeirri sáttargjörð sem hefur verið mynduð um stjórn vatnamála sé kannski að þarna er lagt upp með að hafa gott jafnvægi á milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Það hefur því skýra þýðingu í þessu máli að halda vatnaráðinu en ég tel að sú breyting sem nefndin gerir í meðförum sínum á frumvarpinu, að skýra betur hlutverk ráðsins sem ráðgefandi nefndar hvað varðar mótun vatnaáætlunarinnar, sé mjög til bóta og reyndar nauðsynleg.

Full ástæða er til að hafa vakandi auga með kostnaðarþættinum þegar stjórnsýslan er svo umfangsmikil sem raun ber vitni. Vissulega er lagt upp með það í umhverfisráðuneytinu að sérstök gjaldtaka muni verða innan fárra missira á atvinnurekstri sem nýtir vatnsauðlindina og þar með muni beint framlag úr ríkissjóði væntanlega verða smávægilegt.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom upp og ræddi áhyggjur sínar af orðinu vatnshlot. Það má skilja sjónarmiðið því að þetta er vissulega nýyrði sem hljómar kannski framandi og stingur í eyru einhverra við fyrstu heyrn. Ég verð að játa að ég hef vanist þessu nýja orði ágætlega en er reyndar brenndur af því að hafa farið í gegnum fjölmiðlafrumvarpið í hv. menntamálanefnd þar sem við þurftum að glíma við þríþætta tungubrjóta eins og fjölmiðlaþjónustuveitandi þannig að vatnshlot er eins og lækjarniður í mínum eyrum í þeim samanburði.

Eftir að hafa farið í gegnum þessa vinnu er ánægja í mínum huga yfir þeirri miklu samstöðu sem hefur verið í nefndinni milli fulltrúa einstakra flokka og gleðiefni þegar svo mikilvægt mál er undir, en ekki síður yfir að verið er að marka ákveðin spor hvað varðar það langtímasjónarmið sem er undir í þessu tiltekna máli. Það er ekki verið að hlaupa til og teikna upp vatnaáætlun á örfáum mánuðum eða missirum heldur er lagt upp með að við höfum tíma fram til ársbyrjunar 2018 til að klára áætlunina. Á sama tíma verður aðgerðaáætlun tilbúin um þær ráðstafanir sem grípa þarf til til að ná þeim umhverfismarkmiðum sem lagt er af stað með í frumvarpinu. Ég held að þetta sé merki um breytta tíma og breytta stjórnsýslu þegar svo viðamikið mál er undir.

Vöktunaráætlun, sem skiptir öllu máli upp á að við fáum heildstæða mynd af ástandi vatns í landinu, á að liggja fyrir árið 2015. Mér finnst við þar með stíga skref í rétta átt frá áratug afskiptaleysis sem við getum kallað síðasta áratug þar sem við þurftum að horfa upp á að fjármálakerfið hrundi með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning, m.a. út af því að við treystum því að einhverju leyti í blindni að menn færu vel að ráði sínu og hefðu auga með hagsmunum almennings. Svo fór ekki og við höfum önnur dæmi á liðnum mánuðum, t.d. þau tilvik sem tengjast díoxínmengun frá sorpbrennslustöðvum á þremur stöðum á landinu, um að við getum ekki treyst á það í blindni að menn sjái fram úr því í stjórnsýslunni að grípa til réttra ákvarðana þegar upp koma vandamál sem geta ógnað almannahagsmunum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð í þessari umræðu. Hér er stórt og gott mál á ferð og mikil og góð samstaða milli þingflokka og ég vona að hún haldist til enda í þessu máli.