139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ræðumanni ágæta yfirferð. Ég hjó eftir því í máli hans um kostnaðarþáttinn við þá framtíðarmúsík sem á eftir að spila að hann gerir ráð fyrir að gjaldtakan leggist að mestu á atvinnurekstur eða atvinnulífið. Ég er ekki alls kostar sammála því að svo sé einfaldlega vegna þess hvernig nýtingunni á þessari auðlind er háttað að stærstum hluta í dag. Stærstu notendurnir eru almenningur í gegnum vatnsveitur og hitaveitur og síðan sveitarfélögin í gegnum ýmsa starfsemi sem þar er undir. Þess vegna vil ég gjarnan heyra álit hans á því hvort honum finnist koma til greina að við vinnum þetta mál þannig að ríkisstofnunin sem ætlar að hafa umsýslu með þessu, Umhverfisstofnun í þessu tilfelli, sæki með þessum hætti fé til sveitarfélaga til að kosta verkefni sem þau eiga síðan að bera ábyrgð á að koma til framkvæmda. Snúningurinn sem mér finnst vera dálítið óleystur hjá okkur í nefndarstarfinu er að sjá í gegnum þá þoku sem þarna er á ferðinni. Þá vil ég gjarnan inna hv. þingmann eftir því líka hvort hann geti ekki tekið undir að við vinnslu þess máls reyni menn sem vinna þurfa upp í hendur þingsins að greina á þeim tíma betur annars vegar þá þætti sem verða fyrir kostnaði af þessu og hins vegar þá sem hafa ábata af því að ganga betur um auðlindina.