139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði einmitt að koma inn á sömu atriði og hafa verið hér til umræðu í orðaskiptum þeirra hv. þingmanna Skúla Helgasonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það er auðvitað ljóst að frumvarpið mun hafa í för með sér kostnaðarauka sem er í sjálfu sér fyrirsjáanlegt hvernig verður mætt á næstunni. En þegar horft er til lengri tíma er óljóst hvernig farið verður með greiðslur fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst. Án þess að það breyti nokkru á þessu stigi málsins er rétt að vekja athygli á þessu í umræðunni vegna þess að þar er um að ræða viðfangsefni sem mun að öllum líkindum koma inn á okkar borð innan skamms tíma. Það er mikilvægt að við séum þess meðvituð þegar við göngum frá afgreiðslu þingmála af því tagi að til kostnaðar geti komið í framtíðinni og við þurfum aðeins að glöggva okkur á því hvar sá kostnaður lendir.

Auðvitað nýta ýmsir aðilar í þjóðfélaginu vatnið. Atvinnureksturinn gerir það að sínu leyti og eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti á eru aðilar eins og sveitarfélög stórir notendur vatns, svo að ekki sé talað um heimilin í landinu. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að dreifa kostnaði og hvernig við ætlum að láta einstaka notendur bera kostnað. Þó að sú ákvörðun, eins og ég segi, sé ekki á okkar borði akkúrat eins og stendur þá þurfum við að hugleiða þetta, m.a. þegar við veltum fyrir okkur hvernig við getum farið að við innleiðingu þeirra evrópsku reglna sem hér um ræðir með þeim hætti að sem minnstur tilkostnaður verði því að kostnaðurinn mun falla til. Við getum haft ákveðin áhrif á það hvort hann verður mikill eða lítill. Ég held að það sé allgóð samstaða um að fara varlega í útgjaldaþáttinn og ég held að það sé mikilvægt að við gerum það þannig að við gætum þess að þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að sinna sé sinnt með sem hagkvæmustum og ódýrustum hætti.

Þetta leiðir hugann að öðru sem aðrir hv. þingmenn hafa nefnt í dag. Það er stjórnsýslan sem fylgir samþykkt þessa frumvarps. Ég get tekið undir með öðrum sem hér hafa talað og hafa getið þess að það hafi vissulega verið þáttur sem menn höfðu áhyggjur af þegar málið kom inn í þingið, að verið væri að byggja viðamikla stjórnsýslu upp í kringum stjórn vatnamála. Við getum sagt að að einhverju leyti muni sú stjórnsýsla sem frumvarpið gerir ráð fyrir koma í stað eða sameinast þeirri stjórnsýslu sem hvort sem er verði í sambandi við hollustuvernd og umhverfisvernd almennt en auðvitað liggur fyrir að um einhverja nýja kostnaðarliði verður að ræða. Það skiptir máli að ekki sé farið of bratt í verkið til að kostnaðurinn verði eins lítill og við getum komist upp með miðað við að við náum þeim markmiðum sem frumvarpið stefnir að. Eins og við hv. þingmenn þekkjum er oft hægt að ná sömu markmiðum með hagkvæmari hætti en gert er ráð fyrir í upphaflegum frumvörpum.

Sama vildi ég segja varðandi nefndaskipanir og aðra slíka þætti. Það voru þættir sem við höfðum nokkrar áhyggjur af í upphafi nefndarstarfsins og erum reyndar kannski ekki alveg búin að afgreiða að fullu. Ég hafði lengi efasemdir um ráðið sem átti samkvæmt upphaflegu frumvarpi að hafa veigamikið hlutverk og að hluta til stjórnsýslulegt. Sú breyting hefur orðið á í starfi nefndarinnar að nú er gert ráð fyrir að það verði ráðgefandi og verði þá eins konar ráðgjafarnefnd til viðbótar við þær sérstöku ráðgjafarnefndir sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég játa að fyrir mig var það svolítill þröskuldur að fara yfir að fallast á að gera tillögu um að leggja til ráðgjafarnefnd ofan á ráðgjafarnefndir. Í ljósi sjónarmiða sem við höfum m.a. heyrt frá sveitarfélögunum fellst ég á það vegna þess að með því að hafa nefndina eða ráðið með þeim hætti sem frumvarpið og breytingartillögur gera ráð fyrir tel ég að aðkoma sveitarfélaga að stefnumótun í þessum málum sé betur tryggð. Það er ekki út í hött, alls ekki, þegar horft er til þess að sveitarfélögin hafa gríðarlega miklu hlutverki að gegna varðandi framkvæmd þeirra verkefna, þess eftirlits og þeirrar stjórnsýslu sem frumvarpið tekur til. Af þeim sökum er aðkoma sveitarfélaganna með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir heppileg á þessu stigi. Að því leyti tel ég það viðunandi.

Að mínu mati hefur frumvarpið nú þegar tekið jákvæðum breytingum í meðförum umhverfisnefndar. Ég tek undir það sem aðrir hafa sagt, að málefnalega hefur verið allgóð samstaða um vinnslu málsins. Þetta var ekki létt mál eða einfalt í vinnu umhverfisnefndar en um það hafa ekki verið hörð pólitísk átök. Fremur hefur verið deilt um orðalag og slíka þætti sem ekki varða neina meginstefnu. Nefndarmenn hafa að ég hygg allir lagt sig fram um að bæta málið með það í huga að innleiðing þeirrar tilskipunar sem um ræðir og uppbygging, ef við getum orðað það svo, nýs regluverks eða stjórnkerfis á sviði vatnsverndarmála verði sem best úr garði gerð. Ég held að um þetta mál eigi að geta verið allgóð sátt. Mér sýnist í þeim ágreiningsmálum sem voru hugsanlega í upphafi hafi menn heldur færst nær hver öðrum og náð saman um mjög marga þætti sem skipta máli í þessu sambandi.