139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Lengi var beðið eftir Alþingi hinu nýja og ort um það ljóð og haldnar um það ræður, deilt um staðsetningu þess, hvernig menn ættu að vera klæddir á þinginu og hvernig það mundi allt saman verða, hvort þetta yrði hrafnaþing, kolsvart í holti, eða haukþing á bergi. Síðan hefst þingið, reyndar ekki í þessum sal en ekki mjög langt hér frá, í hinu reisulega norska timburhúsi uppi á hæðinni fyrir austan okkur. Þegar maður les ræður þær sem voru fluttar um þau efni sem þá voru rædd kemur í ljós að þar er talað um peninga. Það er talað um kostnað, talað um byrðar á landstjórninni, á bændum og öllum þeim sem komu við sögu á Íslandi. Það er ekki talað um neitt annað en peninga á því mikla haukþingi í bergi sem þar var uppi. Enn erum við að tala um peninga og komumst ekki mikið fram úr því ágæta umræðuefni. Það er að sjálfsögðu algjörlega skiljanlegt, sérstaklega vegna þess að við erum í raun og veru, þannig að menn geri sér grein fyrir því, að samþykkja hálft frumvarp, hinn helmingurinn er eftir, sem er auðvitað kostnaðarparturinn í framtíðinni. Það er með opin augun sem við leggjum til í umhverfisnefnd að þetta sé gert, að tillögu hæstv. ráðherra, og að við tökum hinn helminginn á næsta þingi, það má ekki verða mikið seinna, sem fjalla mun um framtíðarfjármögnun þessa máls.

Þá vil ég þakka þeim sem um þetta hafa talað, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, Skúla Helgasyni og Birgi Ármannssyni. Ég tek undir áhyggjur þeirra en við megum heldur ekki gleyma því að í fyrsta lagi er nú um framtíðarmúsík að ræða, a.m.k. músík næsta vetrar. Í öðru lagi megum við ekki gleyma því í þessu kostnaðartali að það er líka ávinningur að þessu. Hann er sá að ef við komum þessu kerfi á fót og sköpum þá ferla, þær áætlanir sem þarna er um að ræða, getum við gengið að því að við erum öruggari um hreint vatn en við værum ella. Það er ekki þannig í raun þó að í okkar ágætu sýn um Ísland, sem stundum stenst ekki raunina, sé allt vatn hreint og falli hér fram í fossum og sytrum og lækjum úr hjarta landsins, því að við erum dugleg við að skemma vatnið og eyðileggja það. Auðvitað er atvinnulífinu sem hér er rætt um hættast við, eðli málsins samkvæmt. Þar eru sleggjurnar reiddar hæst. En aðrir þættir mannlífsins koma líka til álita. Það þarf að gæta þeirra vel.

Það er ekki bara um hreint vatn til drykkjar að ræða heldur líka atvinnulífið sjálft. Með þessum hætti geta erlendir menn, sem vilja kaupa af okkur vatn í neytendaumbúðum eða koma til samstarfs við okkur um vatnsvinnslu, gengið að því sem vísu að hér sé kerfi sem þeir kannast við úr álfunni. Hér geta þeir gengið að vottun sem hefur alþjóðlegt gildi og þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það.

Bara þessir tveir þættir nægja til að sýna að þarna er verulegur ábati á ferðum. Því betur sem við stöndum okkur í þessu, þeim mun minni verður kostnaðurinn. Því betra sem kerfið er, sem ferlarnir eru, því klárari, vinnusamari og samhæfðari sem mannskapurinn er sem við það fæst í sveitarfélögunum, í ráðuneytunum, í faginu sjálfu, þeim mun minni verður kostnaðurinn við það vegna þess að þá kemst það bara einfaldlega upp í vana að þessir hlutir séu í lagi á Íslandi.

Þetta vil ég nú segja um kostnaðinn af því ég get ekki sagt mikið annað. Þetta er málefni næsta vetrar og þá tökum við til við það aftur.

Mikið meira ætla ég ekki að segja. Ég þakka þeim sem hér hafa talað fyrir ágætar ræður og réttmætar efasemdir og áhyggjur. Ég vil þó segja vegna þess sem Kristján Þór Júlíusson sagði um Umhverfisstofnun og bráðabirgðaákvæði sem við leggjum til, og bið forseta að hlusta vegna þess að forseti er hv. formaður iðnaðarnefndar, að það ákvæði er til komið sérstaklega vegna umræðu í nefndinni um samhengi þessa máls og þeirra áætlana sem þær gera ráð fyrir við aðrar áætlanir. Þá sérstaklega við þá áætlun sem verið er að fjalla um á öðrum stað í þinginu, í iðnaðarnefnd, ekki langt frá okkur í umhverfisnefnd, þ.e. áætlun sem heitir verndar- og nýtingaráætlun, með einhverjum hala sem ég man ekki og allir vita hvað um er að ræða. Það er sum sé rammaáætlunin mikla. Það er tillaga sem komin er hér inn í því skyni og við leggjum til við þingið í 2. umr. um málið í trausti þess að iðnaðarnefndin geri slíkt hið sama, með öfugum formerkjum að sjálfsögðu, þegar hún leggur fram rammaáætlun til 2. umr.

Að lokum er hin mikla deila í umhverfishlotinu um nýyrðin sem þar er um að ræða. Það orð sem menn hnjóta þar um, einkum hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, orðið hlot, er nú ekki mikið nýyrði. Það er sum sé orðið aldarfjórðungsgamalt. Það hefur auðvitað ekki verið í daglegu brúki, heldur er það notað á sínu sérsviði meðal verkfræðinga og raunvísindamanna. Sjálfir höfundar þess mæla með orðinu, það eru þeir Halldór Halldórsson málfræðiprófessor — það liggur við ég segi: Guð blessi minningu hans. Ef ég væri trúaður mundi ég segja það því að það var mjög þarfur maður fyrir íslenskt mál og reyndar ákaflega skemmtilegur jafningi, liggur mér við að segja, og mikill áhugamaður um tungumál. Ég er alltaf að læra, sagði hann þegar hann var orðinn 85 ára eða eitthvað álíka; á hverjum degi er ég að læra eitthvað nýtt í íslensku. Hann bjó til þetta orð í félagi við jafnaldra sinn, Einar B. Pálsson, verkfræðing og mikinn orðanefndarsnilling í þeirri grein, sem ég held að verkfræðingar hljóti að hefja til skýjanna fyrir hans þátt í íslenskun allra kynja verkfræðinnar. Þeir bjuggu sum sé til þetta orð út frá orðinu hlutur um þær einingar eða heildir sem ekki hafa eiginlegt sköpulag, sem eru ekki á nein horn eða eru ekki í föstu formi. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir má þakka fyrir að við erum ekki að fjalla um t.d. stærðfræði eða rafmagn því að heildir sem til eru í þeim heimum heita ekki hlot, heldur heita þær hlyt með ufsiloni, sem er annað gott nýyrði. Nú þarf hv. þm. Álfheiður Ingadóttir bara að taka til fótanna til að komast undan því nýyrði og passa sig að vera ekki í þeim nefndum sem um það fjalla, þannig að hv. þingmaður sleppur vel, forseti.

Um hvað er þetta? Þetta er auðvitað orð sem við þurfum að nota. Það var ekki notað í Njálu eða í sagnfræði Ara fróða en samsvarar, eins og menn vita, orðinu á dönsku legeme, ensku, þýsku Körper um þessa hluti. Vatnshlotið er þá samnafn yfir það að vera lækur, að vera á, að vera stöðuvatn, að vera grunnvatn, að vera jökull, eða að vera gufa neðan jarðar, eða hvað það nú er. Ég segi eins og aðrir hér að þetta orð venst ágætlega. Er rétt að segja frá því að eftir hinar miklu deilur um orðið hlot í umhverfisnefnd, sem olli því að lokum að varaformaður nefndarinnar og mikill áhugamaður um framgang þessa máls er með fyrirvara um stuðning sinn við málið, afhenti formaðurinn henni ljósrit af grein eftir sjálfa sig úr gamalli bók um málfar og orðsnilld þar sem þetta orð er tekið fyrir og skýrt á alla vegu á nokkrum síðum ásamt öðrum skyldum orðum. Ég skil eiginlega ekkert í því, forseti, að hv. þingmaður skuli voga sér upp í ræðustól til að ræða þetta eftir að hafa fengið þessa grein gefins og vera ekki einu sinni með hana með sér.

Í fullri alvöru þakka ég fyrir þessa umræðu. Ég held að sé kominn tími til, eins og hv. þm. Skúli Helgason sagði, að við vindum okkur í að vinna upp þær vanrækslusyndir sem við höfum fyrir framan okkur eftir áratug afskiptaleysisins. Við getum verið stolt af því þegar við lítum til baka eftir nokkur missiri að hafa átt hlut að því máli sem hér kemur væntanlega næst til 3. umr. eftir nefndarfund, a.m.k. einn sem verður á morgun, og umfjöllun á honum eða í framhaldi af honum.