139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Í nefndaráliti því sem ég mælti fyrir fyrir hönd minni hluta nefndarinnar gagnrýndum við m.a. það vinnuferli sem farið hefur í gang og tengist hugsanlegum starfsmönnum fyrirhugaðrar nýrrar stofnunar. Í því minnihlutaáliti mótmæltum við jafnframt að sett yrði í 10. gr. frumvarpsins það ákvæði að 7. gr. laga nr. 70/1996 skuli ekki gilda um ráðstöfun starfa. Við ræddum að það hlyti að vera umhugsunarvert fyrir löggjafarvaldið að binda í lög að ekki skuli farið að eldri lögum. Þrátt fyrir að svo hafi verið gert áður er ekki þar með sagt að það þurfi að gera „sömu vitleysuna“ aftur og aftur.

Horft hefur verið til m.a. stofnunar Veðurstofu og Vatnamælinga, en þar voru störf yfirmanna auglýst. Í nýju velferðarráðuneyti var ráðuneytisstjórum sagt upp, nýr ráðuneytisstjóri ráðinn og síðan auglýst eftir skrifstofustjórum og deildarstjórum. Það væri kannski æskilegra að þessi fyrirhugaða nýja stofnun gerði eitthvað í þá veru í stað þess að hefja vinnuferli í sameiningu stofnana sem er enn þá í umsýslu og umræðu á Alþingi, frumvarpið ekki orðið að lögum og engum ljóst hvort og hvaða breytingar verða hugsanlega gerðar á því.

Það hefur komið fram að starfsmönnum þessara stofnana, landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar, var tilkynnt um sameininguna og það er vel. Það hefur jafnframt komið fram í umræðu hér og innan heilbrigðisnefndar að þetta hafi verið að óskum starfsmanna. Heilbrigðisnefnd barst bréf þann 4. mars 2011 frá trúnaðarmanni Félags íslenskra náttúrufræðinga, trúnaðarmanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og trúnaðarmanni í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu. Þetta eru sem sagt trúnaðarmenn hjá landlæknisembættinu og í bréfi þeirra kemur fram, með leyfi forseta:

„Í ljósi umræðu á Alþingi skal tekið fram að tillagan um sameiningu þessara tveggja stofnana er ekki fram komin vegna óska starfsmanna þeirra. Ef af sameiningu verður munu starfsmenn vissulega leggja sig fram um að uppfylla þær væntingar sem gerðar verða til hinnar nýju stofnunar. Í því sambandi er mikilvægt að rétt verði að sameiningunni staðið.“

Virðulegur forseti. Þegar minni hlutinn gerði athugasemd við það ráðningarferli sem farið var af stað í ljósi þess að ekki var ljóst í hverju hugsanlegar breytingar yrðu fólgnar fannst okkur, og við segjum það enn, það dapurleg byrjun fyrir nýja stofnun að gegnsæi og fagleg vinnubrögð séu fyrir borð borin að okkar mati. Við segjum ljóst að ekki liggja fyrir starfslýsingar hinna nýju starfa, hvorki sviðsstjóra né annarra.

Í bréfi þeirra trúnaðarmanna sem ég vitnaði til, herra forseti, og mun vitna til hér aftur var starfsmönnum beggja stofnana tilkynnt um að þeir yrðu ráðnir aftur hjá hinni nýju stofnun. Er það vel. Við höfum rætt um að breyta 10. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að 7. gr. laga nr. 70/1996 gildi ekki. Í umræddu bréfi frá trúnaðarmönnum þessara þriggja stéttarfélaga hjá landlæknisembættinu segir, með leyfi forseta:

„Starfsmönnum beggja stofnana hefur verið tilkynnt að þeir muni verða ráðnir aftur hjá nýrri stofnun. Því ber að fagna. Hins vegar skorum við á heilbrigðisnefnd að ganga svo frá 10. gr. hins nýja frumvarps að stöður yfirmanna hjá hinni nýju stofnun verði auglýstar, í það minnsta innan þeirra stofnana sem sameina skal. Þá þurfa starfslýsingar að liggja fyrir. Tryggja verður að ráðningarferli lúti góðum stjórnarháttum og að jafnræðis verði gætt. Æskilegt er að óháður aðili, t.d. viðurkennd ráðningarfyrirtæki, meti umsóknir. Á sama hátt ber að gæta þess að rétt verði staðið að ráðningum annarra starfsmanna.“

Virðulegur forseti. Hér er það ósk trúnaðarmanna þriggja stéttarfélaga hjá landlæknisembættinu að hv. heilbrigðisnefnd, svo og hv. alþingismenn, taki tillit til þeirra athugasemda sem við í minni hlutanum höfum gert að tillögu okkar, þ.e. að breyta a-lið 10. gr. í þá veru að öll störf verði lögð niður og þau síðan auglýst. Trúnaðarmennirnir ganga skemur með að auglýsa beri í það minnsta yfirmannastöður og þá innan þeirra stofnana sem á hér að sameina.

Herra forseti. Þetta bréf barst heilbrigðisnefnd 4. mars. Það er vel og sýnir að starfsmönnum landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar er annt um stofnanir sínar og fylgjast með því sem fram fer á Alþingi í umræðu um sameiningu þessara tveggja stofnana.

Bregður þá svo við, herra forseti, að þann 16. mars 2011 berst bréf frá landlækni, Geir Gunnlaugssyni. Hvert skyldi innihald þess bréfs vera? Jú, það svarar bréfi þriggja trúnaðarmanna hjá landlæknisembættinu til heilbrigðisnefndar. Í fyrsta lagi gagnrýnir hann að farið sé að vinna eftir lagafrumvarpi sem enn hefur ekki tekið gildi sem lög frá Alþingi og á þá sérstaklega við tilnefningar í stöður sviðsstjóra. Þetta er eitt af gagnrýnisatriðum í svari landlæknis til heilbrigðisnefndar við bréfi trúnaðarmanna innan stofnunarinnar sem hann veitir forstöðu. Þar fer hann yfir stöðuna, um skipan undirbúningshóps o.s.frv. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Vegna þessarar stefnumörkunar stjórnvalda hafa starfsmenn unnið að undirbúningi velheppnaðrar sameiningar allt frá því í mars 2010.“ — Hjá heilbrigðisnefnd liggur bréf sem segir kannski ekki alveg nákvæmlega það sama og landlæknir kallar velheppnaða sameiningu. — „Í kjölfar sviðsmynda- og stefnumótunarvinnu með hagsmunaaðilum og starfsmönnum voru settar fram hugmyndir að nýju skipuriti og drög að starfslýsingum sviðsstjóra. Öllum starfsmönnum var því kunnugt um meginviðfangsefni hvers sviðs í sameinaðri stofnun.“

Landlæknir er sem sagt búinn að draga upp sviðsmyndir. Hann er búinn að leggja niður fyrir sér meginviðfangsefni hvers sviðs innan verðandi stofnunar þótt frumvarpið sé enn til umræðu á Alþingi.

Jafnframt segir, með leyfi forseta:

„Í bréfi sínu fagna trúnaðarmennirnir því að gert hefur verið ráð fyrir því að starfsmenn haldi störfum sínum. Leggja þeir til að stöður yfirmanna hjá hinni nýju stofnun verði auglýstar, a.m.k. innan stofnananna.“

Síðan kemur svar landlæknis og útskýringar á því sem starfsmennirnir leggja fram í sínu bréfi, með leyfi forseta:

„Í öllu sameiningarferlinu hefur verið lögð áhersla á starfsöryggi starfsmanna.“

Síðar stendur:

„Á þeim fundi [með starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins] var okkur m.a. tjáð að ekki væri valkostur að auglýsa stöður stjórnenda eingöngu meðal starfsmanna. Ef auglýst væri þyrfti að auglýsa opinberlega. Í ljósi þess að tryggja ætti öllum starfsmönnum störf og kröfu stjórnvalda um aðhald í rekstri og almennum kröfum um hagræðingu hjá ríkisstofnunum var ákveðið að tilnefna sviðsstjóra úr hópi núverandi starfsmanna, […] Tilnefningar í stöður sviðsstjóra eru gerðar með fyrirvara um samþykkt frumvarpsins …“

Enn fremur segir í svarbréfi landlæknis til heilbrigðisnefndar við bréfi sem trúnaðarmenn landlæknisembættisins sendu heilbrigðisnefnd:

„Ef það er vilji löggjafans að auglýsa stöður yfirmanna lausar til umsóknar verður að gera ráð fyrir fjárveitingu til að standa straum af kostnaði við hugsanlegar nýráðningar.“

Þetta er í fyrsta skipti sem orðið kostnaður kemur fram í raun og veru. Það þarf að íhuga kostnað vegna þess að í ágætri ræðu áðan fór hv. 1. þm. Norðvest., Ásbjörn Óttarsson, m.a. yfir húsnæðismálin og þá fjármuni sem þar eru undir.

Herra forseti. Mér er kunnugt um að hjá landlæknisembættinu séu þeir sviðsstjórar sem hafa verið tilnefndir — og forsendan var tveir frá landlæknisembættinu og tveir frá Lýðheilsustöð. Á fundi sem SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu boðaði til og setið var með innan landlæknisembættisins sátu þeir tilnefndu sviðsstjórar sem komu frá Lýðheilsustöð og hvorugur þeirra er innan SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu. Verðandi sviðsstjórar hugsanlegrar stofnunar eru þegar farnir að taka þátt í starfsmannafundum sem slíkir.

Virðulegur forseti. Drög að starfslýsingum hafa ekki verið lögð fyrir, það er ljóst, en engu að síður hafa tekið til starfa sviðsstjórar samkvæmt tilnefningu sem fór fram í desember á síðasta ári. Við erum nú, þann 16. mars, enn að ræða það frumvarp sem hugsanlega verður að lögum.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni í allri þessari sameiningu og því vinnuferli sem fer af stað við ráðningar starfsmanna við hugsanlega stofnun að Alþingi Íslendinga og heilbrigðisnefnd hafi á sínu borði bréf trúnaðarmanna þriggja félaga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu — og afrit af því bréfi var sent hæstv. velferðarráðherra, landlækni, forstjóra Lýðheilsustöðvar, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi íslenskra náttúrufræðinga og SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu — og þá berst inn á borð til heilbrigðisnefndar svarbréf landlæknisembættisins við bréfi trúnaðarmanna til heilbrigðisnefndar. Það hlýtur að segja meira en mörg orð um það sem stendur í bréfi landlæknis um velheppnaða sameiningu — ég tek það fram að hún er enn ekki orðin að veruleika þar sem frumvarpið er ekki orðið að lögum sem þó stendur til — að við í heilbrigðisnefnd sitjum hér með svarbréf landlæknis við bréfi trúnaðarmanna landlæknisembættisins. Sér er hver velheppnaða sameiningin.

Þetta er enn eitt dæmi um það að menn hefðu átt að taka skrefin hægar, vinna hægar og bíða þess að Alþingi Íslendinga afgreiddi frumvarpið sem lög áður en þeir fara að leigja húsnæði undir nýja stofnun án þess að kanna hvort og þá hvernig hægt er að leigja það húsnæði sem landlæknisembættið er í núna. Menn hefðu átt að kanna og bíða eftir að sjá hvernig Alþingi Íslendinga færi með það frumvarp sem hér liggur fyrir, hvaða breytingar það hygðist gera á því áður en forstöðumenn núverandi stofnana, landlæknir annars vegar og forstjóri Lýðheilsustöðvar hins vegar, tækju sig til og byggju til sviðsmyndir fyrir hugsanlega verðandi stofnun og færu að ráða til sín fólk sem síðan tekur þátt í stefnumótunarvinnu, sem síðan tekur þátt í starfsmannafundum starfsmannafélags sem það er ekki aðili að. Það er æðimargt óljóst hér, virðulegur forseti, og það er æðimargt sem hv. heilbrigðisnefnd þarf að fara yfir þegar málið kemur aftur til heilbrigðisnefndar á milli 2. og 3. umr. eins og ég óska hér með eftir.