139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, annars vegar það sem hv. þingmaður sagði í sinni ræðu áðan um að það væri alveg skýrt að fagleg samlegðaráhrif væru borðliggjandi. Ég ætla ekkert að efast um það enda sit ég ekki í heilbrigðisnefnd og fjalla ekki faglega um málið þar. Því langar mig að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirra aðstæðna sem við höfum rætt hér töluvert: Var skoðað eitthvað sérstaklega að færa verkefni á milli stofnananna til að ná þessum samlegðaráhrifum og fara ekki í þetta bruðl með húsnæðiskostnaðinn?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hún telji heilbrigðisráðuneytinu sæmandi að leggja fram fullyrðingar um að það náist fram hagræðing en samt sem áður hefur hvorki verið gerð úttekt á fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna tveggja né rekstraráætlun gerð fyrir sameiginlega stofnun á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Finnst hv. þingmanni þetta boðleg vinnubrögð, sérstaklega í ljósi þess sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan að þetta ferli er búið að standa í heilt ár? Það er heilt ár síðan byrjað var að ræða hugmyndina um þessa nýju stofnun. Er ekki eðlileg krafa að heilbrigðisráðuneytið sýni fram á þessi samlegðaráhrif og útfæri þau með þeim hætti að ekki þurfi að efast um og deila um það? Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef verulegar áhyggjur af því að þessi vinna skuli ekki fara fram ef hún er svona borðliggjandi. Á hvaða forsendum getur ráðuneytið fullyrt þetta þegar það getur ekki einu sinni sýnt fram á það?