139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fagleg samlegðaráhrif. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni voru um það áhöld þegar Lýðheilsustöð var stofnuð hvort hafa ætti sérstaka stofnun sem sinnti lýðheilsumálum eða hvort það ætti að efla lýðheilsustarf innan landlæknisembættisins því að þarna eru verkefni sem skarast. Tekist var á um þetta á faglegum nótum. Niðurstaðan varð að ákveðið var að hafa þetta sérstaka stofnun.

Maður getur sagt að þau verkefni sem skarast í dag hafi alla tíð skarast og það eru orðin áhöld um hvort við teljum að það eigi að halda áfram þessum tveimur stofnunum eða hvort við teljum að það væri sterkara að hafa þarna eina stofnun. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fara þá leið að ná samlegðaráhrifum með einni stofnun. Við þurfum að horfa til lengri framtíðar. Fagleg rök liggja þarna til grundvallar þó að við séum ekki sérstaklega með einhverja úttekt og skýrslu um það í höndunum.

Hvað varðar umræðu um bruðl á húsnæði tel ég að leysa verði með einhverjum hætti núverandi húsnæði landlæknisembættisins, t.d. með útleigu eða uppsögn á samningi, eða samningum eftir því hvernig á málið er litið. Það er ekki bruðl að mínu mati hvað varðar það húsnæði sem á að leigja undir nýja starfsemi þó að það séu (Forseti hringir.) einhverjir fermetrar umfram það sem núverandi húsrýmisáætlun segir til um ef maður horfir til framtíðar.