139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þuríður Backman sagði að hvað varðaði 7. gr. laga nr. 70/1996 hefði verið farið eftir henni í velferðarráðuneytinu. Ég ætla að upplýsa það hér og nú að það er rangt. Þegar þau ráðuneyti voru sameinuð var ráðuneytisstjórum sagt upp og ráðuneytisstjórastaðan auglýst. Það er æðsta staðan í ráðuneytinu. Síðan voru stöður fimm starfsmanna, skrifstofustjóra og deildarstjóra, auglýstar á innra neti allra stofnananna og þeim gafst tækifæri til að sækja um þannig að því sé til haga haldið.

Annað og meira, þegar velferðarráðuneytið var sameinað voru klár lög um sameininguna þannig að ekki var ráðist í vinnuferli á fyrirliggjandi frumvarpi, heldur var ráðist í vinnuferli á fyrirliggjandi lögum.

Mönnum verður tíðrætt um að þetta sameiningarferli hafi staðið frá 1. mars í fyrra. Hugmyndin byrjar 1. mars 2010 og þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði hóp til að fara í þá vinnu. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Þuríði Backman að ferillinn er orðinn langur en þennan tíma hefði að mínu mati átt að nýta til að sýna ljóslega fram á að eftir að frumvarpið yrði að lögum væri skipurit hinnar nýju stofnunar klárt og kvitt með starfslýsingum þeirra sviðsstjóra sem þar ættu að vinna sem og starfslýsingum annarra starfsmanna sem taka ættu til starfa hjá hinu nýja embætti sem það átti þá að vera en er í dag orðið að nýrri stofnun. Þá hefði legið fyrir samþykki Alþingis, þá hefði legið fyrir skýrt skipurit og allir vitað að hverju þeir gengju, hugsanlega ráðningarkjörum, að ég tali ekki um starfslýsingar, og hlutirnir verið í lagi. Þetta hefði átt að vera sá grunnur sem sameiningarferlið hefði átt að byggjast á á þeim tíma frá því að hugmynd um frumvarpið kviknar og þar til frumvarpið yrði að lögum og menn gætu farið að vinna samkvæmt því.

Ég verð að segja, frú forseti — herra forseti, þetta er dálítið erfitt stundum af því að konur eru í meiri hluta í forsætisnefnd og þá verður manni oftar en ekki fótaskortur á tungunni, virðulegur forseti. Við erum að fást við tvær stjórnsýslustofnanir en á undanförnum árum, frá hruni, höfum við t.d. verið að fást við fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins, til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva vítt og breitt um landið. Þar hefur engum dottið í hug að allir ættu að geta haldið störfum sínum. Þar hefur fólki unnvörpum verið sagt upp og þar eru konur í meiri hluta. 600 manns hafa á undanförnum árum misst vinnu sína á Landspítalanum og það er vegna ríkjandi efnahagsástands. Hér leggjum við engu að síður til við sameiningu þessara tveggja stofnana í eina að ekki megi hrófla við starfsmönnum. Þannig er það einfaldlega. Stundum verður fólk að vera sjálfu sér samkvæmt. Við erum að ræða stjórnsýslustofnanir.

Virðulegur forseti. Þegar faglega þáttinn ber á góma ræða menn oftar en ekki um faglegan þátt Lýðheilsustöðvar en ekki hugsanlega faglega þáttinn innan landlæknisembættisins. Þá veltir maður fyrir sér hvort þessi faglegi þáttur Lýðheilsustöðvar hafi endilega verið best kominn innan landlæknisembættisins, eða hefði hugsanlega mátt færa starf Lýðheilsustöðvar með einhverjum hætti inn á forvarnadeildir heilsugæslunnar þar sem forvarnir eru unnar í heimabyggð en ekki í stjórnsýslustofnun? Ég ætla þó ekki að velta því hér upp hvort hefði verið skynsamlegra.

Það er eitt í þessu, virðulegi forseti, þessi mál hafa hvorki verið rædd né skoðuð til hlítar. (Forseti hringir.) Við hefðum átt að gefa okkur lengri og betri tíma í að ræða sameiningu stjórnsýslustofnana og hvernig ætti að taka á málinu. Við höfum ekki unnið þetta nógu vel. Þetta gengur ekki alveg upp og bið ég hér með aftur um orðið.