139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

mat á skilaverði eignasafns Landsbanka Íslands hf.

563. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mat á skilaverði eignasafns Landsbanka Íslands hf. Flutningsmenn ásamt mér eru Sigurður Ingi Jónsson, Eygló Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson og Vigdís Hauksdóttir.

Við þekkjum að sjálfsögðu umræðuna um Icesave og eignir Landsbankans. Til grundvallar þeirri umræðu hefur legið mat skilanefndar bankans á eignasafninu eða aðila sem unnið hafa fyrir skilanefndina. Við teljum mjög mikilvægt að fram fari óháð mat á þessum eignum áður en lengra er haldið og áður en til atkvæðagreiðslu kemur um þetta stóra mál. Það er mjög mikilvægt að við vitum stærðina á eignasafninu í hvora átt sem það er metið, lægra eða hærra. Auðvitað vonum við öll að eignasafnið sé vanmetið. Tillagan sem slík hljóðar svona:

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að ráða, í samráði við formenn stjórnmálaflokka, tvö óháð ráðgjafarfyrirtæki til að meta skilaverð eignasafns Landsbanka Íslands hf.

Greinargerðin er svohljóðandi:

Sunnudaginn 20. febrúar sl. tilkynnti forseti Íslands að hann hygðist ekki undirrita lög um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Með þeirri ákvörðun er hið margumrædda Icesave-mál á ný komið til afgreiðslu þjóðarinnar. Í þeim tilgangi að skýra betur stöðuna sem uppi er og til þess að íslenska þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun í Icesave-deilunni þarf að tryggja að sem mest af upplýsingum liggi fyrir og að þær séu öllum aðgengilegar.

Einn af þeim þáttum sem nauðsynlegt er að skoða nánar og ekki hefur verið lagt sjálfstætt mat á af opinberum aðilum er áætlað skilaverð eigna Landsbanka Íslands hf. Þar hefur einungis verið stuðst við mat skilanefndar bankans. Endanlegt skilaverð eignasafns Landsbankans skiptir hvað mestu þegar rætt er um hversu háar fjárhæðir af endurgreiðslu til breska og hollenska ríkisins kunni að lenda á íslenskum skattgreiðendum. Jafnframt þyrfti að leggja mat á hvenær útgreiðslur helstu eigna gætu hafist.

Þingsályktunartillaga þessi gerir því ráð fyrir að Alþingi feli fjármálaráðherra að ráða, í samráði við formenn stjórnmálaflokkanna, tvo óháða sérfræðinga eða fyrirtæki til að leggja sjálfstætt mat á skilaverð safnsins. Nokkur fyrirtæki eru þekkt í þessum efnum, svo sem McKinsey & Company og Oliver Wyman. Mikilvægt er að samráð verði haft við alla stjórnmálaflokka um val á sérfræðingum.

Frú forseti. Þetta er að sjálfsögðu mjög einföld tillaga en hún er að okkar mati mjög mikilvæg til að upplýsingar séu sem gleggstar þegar kemur að því að greiða atkvæði um þennan nýja samning 9. apríl nk. Við þekkjum úr umræðunni að mat skilanefndarinnar hefur, ef nota má það orðatiltæki, rokkað svolítið til ef horft er til upphafs árs 2010 og svo aftur til ársins eða hausts sama árs, þá breyttist matið nokkuð, þ.e. það lækkaði. Síðan kom nýtt mat um daginn þar sem það hækkaði aftur. Það segir okkur að sveiflur eru í eignasafninu eða matinu á eignasafninu og það undirstrikar þá áhættu sem er fólgin í þessu máli.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að þetta mál fái hraða og góða afgreiðslu því að tíminn fram að atkvæðagreiðslu um Icesave er mjög stuttur. Því legg ég til að þessu verði vísað til efnahags- og skattanefndar og nefndin taki það fljótt til afgreiðslu.