139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[18:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem kannski ekki beint í andsvar, heldur fyrst og fremst til að fagna þessari tillögu og þakka hv. þingmanni fyrir það frumkvæði sem hann sýnir með því að leggja hana fram. Mér finnst þetta mjög athyglisvert og metnaðarfullt. Hv. þingmaður fór yfir það í ræðu sinni að gert væri ráð fyrir víðtæku samstarfi. Það er klárt með hvaða hætti það er gert, eins líka það markmið að sjálfsögðu að vinna bug á langtímaatvinnuleysi ungs fólks, efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins.

Ég hjó eftir því að þingmaðurinn sagði mjög mikilvægt að tengja saman menntastefnuna og atvinnustefnuna. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það. Það er mjög mikilvægt og við hefðum betur gert það miklu fyrr. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Þó að ég geri mér grein fyrir að þetta er sett í ákveðið samráðsferli og hæstv. forsætisráðherra falið að stýra því langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á hugmyndir um að fólk sem væri atvinnulaust mundi hugsanlega mæta í fjóra tíma því að við vitum hversu mikið þjóðarböl atvinnuleysi er að verða, því miður. Menntafólk sem er atvinnulaust gæti þá kennt öðrum sem eru með minni menntun. Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi það koma til greina til að stíga mjög afgerandi skref í þessa átt, eins og reiknað er með í þingsályktunartillögunni, að þeir nemendur sem færu í þetta starfsgreinanám gætu jafnvel fengið atvinnuleysisbætur í náminu eða eitthvað svoleiðis, eða hluti af þeim. Væri hv. þingmaður tilbúinn að skoða þá hluti?