139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxtur.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það eru auðvitað stór tíðindi þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hingað upp og segir mjög mikið vanta upp á að hagvöxtur sé viðunandi og fjárfesting sé langt undir því sem að var stefnt. Það eru mikil tíðindi. Þegar við berum nú saman það sem að var stefnt af aðilum vinnumarkaðarins og af ríkisstjórnarinnar hálfu árið 2009 er ég einfaldlega að benda á þá staðreynd að ykkur hefur mistekist. Það hefur mistekist í ríkisstjórninni að skapa þann ramma sem ráðherrann vísaði til að þyrfti að vera til staðar. Fjárfesting mun ekki fara af stað með þeirri skattstefnu sem ríkisstjórnin er með. Fjárfesting mun ekki fara af stað ef menn halda sjávarútveginum í óvissu eins og gert hefur verið og hefur lamað þá atvinnugrein og komið í veg fyrir alla fjárfestingu í henni. Fjárfesting mun heldur ekki fara af stað ef ríkisstjórnin heldur áfram að senda þau skilaboð til fjárfesta að þeir megi gera ráð fyrir því að hugmyndir þeirra verði mögulega þjóðnýttar í orkugeiranum Fjárfesting mun heldur ekki fara af stað ef ríkisstjórnin heldur áfram að gefa fölsk loforð, t.d. um afnám haftanna. Það átti að koma með áætlun um afnám haftanna í ágúst 2009 (Forseti hringir.) en nú segir Seðlabankinn að hann sé að smíða áætlun um það sama mál, (Forseti hringir.) um það bil tveimur árum síðar.

Þessi leið sem ríkisstjórnin hefur verið að feta sig eftir mun ekki leiða okkur á neinn endastað sem þjóðin í landinu er að bíða eftir að komast á.