139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

lán til Landsvirkjunar.

[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var mjög athyglisvert að hlusta áðan á ræðu hæstv. forsætisráðherra, hún er greinilega búin að gleyma því að fyrir ekki svo löngu afhenti ég henni persónulega tillögur Framsóknarflokksins um lausnir á málefnum heimilanna, tillögur í efnahagsmálum og annað slíkt. En það er eins og það er, fólk gleymir stundum hlutunum og ýmsar ástæður fyrir því væntanlega.

Í morgun sá ég hins vegar mjög ánægjulega frétt þegar ég kíkti á m.a. vefmiðlana, þá frétt að Landsvirkjun væri búin að fá lán frá Norræna fjárfestingarbankanum upp á 8,6 milljarða kr. vegna Búðarhálsvirkjunar. Þessi frétt er líklega það ánægjulegasta við það sem af þessum degi er liðið. Hugsið ykkur, kæru þingmenn og frú forseti, að þetta gerist þrátt fyrir að Icesave hafi ekki verið leyst. Stórmerkilegt.

Hæstv. forsætisráðherra hlýtur því að fagna því ákaflega með mér að þetta skuli vera hægt, að við skulum vera farin að fá fjármögnun á mikilvæg verkefni þrátt fyrir að þetta stóra mál, sem sumir kalla svo, sé ekki leyst. Forstjóri Landsvirkjunar lýsir því yfir að ástæðan fyrir því að þetta lán komi nú sé sú að staða fyrirtækisins er svo sterk, þetta sé svo gott fyrirtæki, reksturinn svo góður. Það segir okkur að Landsvirkjun hefur núna mörg tækifæri, frekar en oft áður, til að fara í framkvæmdir. Því spyr ég hæstv. ráðherra, fyrir utan það að fagna þessu með mér, hvort hún sé mér þá ekki sammála um að nýta þann meðbyr sem Landsvirkjun hefur og blása til sóknar hér í framkvæmdum til að efla atvinnulífið í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)