139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

lán til Landsvirkjunar.

[10:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég var yfir mig ánægður með svar hæstv. ráðherra þangað til fimm sekúndur voru eftir af ræðunni. Ég taldi að hæstv. ráðherra væri að segja nákvæmlega þá hluti sem við þurfum að heyra í þessum sal, að það væru tækifæri til að fjárfesta, tækifæri til að láta hér landið skríða af stað í sókn til framtíðar, en þá kom í lokin yfirlýsing sem er mjög ótrúleg — af því að við erum hér með þær fréttir að það er búið að veita Landsvirkjun lán upp á 8,6 milljarða — frá hæstv. forsætisráðherra um að Icesave komi samt í veg fyrir lánveitingar til Íslands. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það er svolítið sérstakt að heyra það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort önnur fyrirtæki séu einfaldlega ekki eins vel rekin og Landsvirkjun (Forseti hringir.) því að það kemur fram að forsenda þess að Landsvirkjun fái þetta lán (Forseti hringir.) sé hversu gott fyrirtækið er.