139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst og hefur ekki farið fram hjá neinum að Samtök atvinnulífsins hafa teflt þessu máli mjög fram í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum, viljað hafa það uppi á borðinu og fara í samninga um það núna í kjarasamningaviðræðum. Ég tel það ekki skynsamlegt í kjarasamningaviðræðum. Þetta stóra mál sem þeir einir af samningsaðilum tefla fram (Gripið fram í.) (EKG: Svaraðu spurningunni.) þvælist fyrir málinu í kjarasamningaviðræðum.

Ég tel að samráð í þessu máli muni að mestu leyti fara fram þegar málið kemur inn til þingsins. Þá verður málið væntanlega sent út til aðila sem fá tækifæri til að tjá sig um þá niðurstöðu. (EKG: Þetta er alveg …) Samráðið fór fram í stóru nefndinni í september og þá komu allir aðilar að borðinu (Forseti hringir.) og ég get fullvissað þingmanninn um að hliðsjón er sterklega höfð af því og líka af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.