139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til þín, frú forseti, að þessi dagskrárliður verði tekinn upp innan forsætisnefndar. Mér sýnist dagskrárliðurinn fyrirspurnatími til ráðherra og ríkisstjórnar vera að snúast upp í andhverfu sína. Hér leyfa ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér að svara út í hött með forsætisráðherra í broddi fylkingar. Við heyrðum núna svar hennar við síðustu fyrirspurn hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, svarleysið er sláandi. Þvert á móti eru lagðar fram fyrirspurnir um stefnu stjórnarandstöðunnar. Gott og vel, þá skulum við bara snúa þessum tíma upp í það að ræða um stefnu stjórnarandstöðunnar sem liggur alveg fyrir. Það væri þá óskandi að þegar við erum að tala um tillögur okkar sjálfstæðismanna, m.a. í efnahagsmálum, tækju ráðherrar í ríkisstjórn þátt í þeim umræðum og þeim tillögum.

Ég hvet hæstv. forseta til að taka þennan lið til endurskoðunar til að við fáum raunveruleg svör. Það er annaðhvort um það að ræða að hér sé svarleysi af hálfu ríkisstjórnar eða (Forseti hringir.) einfaldlega þekkingarleysi á málaflokknum því að við fáum engin svör frá hæstv. ríkisstjórn.