139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[11:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. formanns umhverfisnefndar, nefndin hefur unnið mikið í þessu máli. Um er að ræða frumvarp sem felur í sér innleiðingu tilskipunar frá Evrópusambandinu sem tekin hefur verið upp á hinu Evrópska efnahagssvæði og markar það nokkuð ramma vinnunnar. Þó hefur verið fjallað um það innan nefndarinnar hvernig standa eigi að þeirri innleiðingu í íslenskan rétt með sem bestum hætti. Í því sambandi er allnokkurt svigrúm eins og stundum gerist þannig að álitamálin hafa verið fjölmörg. Við sjálfstæðismenn höfum tekið þátt í þeirri vinnu og föllumst á flestar þeirra breytingartillagna sem fyrir liggja og munum því styðja þær við atkvæðagreiðsluna.